Enski boltinn

Vilja fá 40 milljónir punda fyrir Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur.
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, er eftirsóttur eftir frábært tímabil með velska liðinu en hann skoraði níu mörk á síðustu leiktíð og lagði upp þrettán.

Hann var þriðji stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Kevin De Bruyne hjá Manchester City og Christian Eriksen hjá Tottenham en í heildina kom Gylfi með beinum hætti að 22 af 45 mörkum Swansea í úrvalsdeildinni.

Everton er vill ólmt fá Gylfa eins og síðast var fjallað um í gær og er búið að gera Swansea 25 milljóna punda tilboð í íslenska landsliðsmanninn. Eigendur velska félagins ætla ekki að láta hann fara á því tombóluverði eins og kom einnig fram í gær.

Velskir og enskir miðlar greina frá því í dag að 40 milljónir punda sé verðmiðinn sem Swansea getur sætt sig við ef það á að missa besta leikmanninn sinn en Gylfi fékk launahækkun fyrir síðustu leiktíð og því liggur Swansea-mönnum ekkert á að selja hann.

Swansea hefur áður hafnað svipuðum tilboðum og barst frá Everton núna en fjallað var um það í janúar að sama félag lagði inn tilboð í Gylfa. Þá var því einnig haldið fram að Southampton vildi fá íslenska miðjumanninn.

Swansea hefur áður hafnað tilboðum í Gylfa Þór og er líklegt til að halda áfram að gera það nema félögin sem vilja fá hann bjóði alvöru upphæðir.


Tengdar fréttir

Eigandi Swansea: Gylfi er ekki til sölu

Aðaleigandi Swansea, Steve Kaplan, hefur brugðist við fréttum um að félagið hafi ákveðið að selja Gylfa Þór Sigurðsson til Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×