Erlent

Viðurkennir siðferðilega ábyrgð á glæpum

Freyr Bjarnason skrifar
Radovan Karadzic sagði saksóknara ekki hafa „snefil af sönnunargögnum“ í réttarhöldunum yfir sér.
Radovan Karadzic sagði saksóknara ekki hafa „snefil af sönnunargögnum“ í réttarhöldunum yfir sér. Fréttablaðið/AP
Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, sagði í réttarhöldum í gær að saksóknarar hefðu ekki „snefil af sönnunargögnum“ sem tengja hann við voðaverkin í Bosníustríðinu. Í 874 blaðsíðna bréfi þar sem vörn hans í málinu er útlistuð viðurkennir hann að sem leiðtogi Bosníu-Serba beri hann „siðferðislega ábyrgð á öllum þeim glæpum sem voru framdir af almennum borgurum og herliði Srpska“.

Karadzic er ákærður í ellefu liðum af stríðsglæpadómstólnum í Haag, þar á meðal fyrir þjóðarmorð og ofsóknir Bosníu-Serba á meðan á stríðinu í Júgóslavíu stóð 1992 til 1995. Um eitt hundrað þúsund manns féllu í stríðinu. Hinn 69 ára gamli Karadzic sagðist ekki hafa vitað af því að Bosníu-Serbar hefðu slátrað rúmlega sjö þúsund múslímum í Srebrenica árið 1995. Það var stærsta fjöldamorð í sögu Evrópu frá því í síðari heimsstyrjöldinni.

Hann sagði réttarhöldin ekki aðeins vera yfir honum heldur öllum Bosníu-Serbum. „Ef ég er brjálaður er ein og hálf milljón manna líka brjáluð fyrir að leyfa sonum sínum að fara í ískaldar skotgrafir til að verja heimili þeirra og fjölskyldur í þrjú ár?“ spurði hann. Karadzic á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. Talið er að nokkrir mánuðir muni líða áður en dómstóllinn kemst að niðurstöðu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×