Viðskipti innlent

Víðtæk verkföll yfirvofandi á almennum vinnumarkaði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísir/HAG
Í tilkynningu sem Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér kemur fram að ef stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins stilli ekki betur saman strengi megi á næstu misserum búast við víðtækari verkföllum á almennum vinnumarkaði en þekkst hafi um áratugaskeið.

Í tilkynningunni segir orðrétt að „ástæðurnar megi rekja til kjarasamninga opinberra starfsmanna, samskiptaleysis stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar og ósamstöðu um áherslur í efnahagsmálum. Í hnotskurn sé verkalýðshreyfingin á almennum vinnumarkaði að undirbúa harðar aðgerðir vegna trúnaðarbrests við ríkisstjórnina“.

Fram kemur í tilkynningunni að allir beri ábyrgð á efnahagstöðugleika en hröð hjöðnun verðbólgu sýni að kjarasamningar seinustu ára hafi skilað árangri. Það geti þó reynst þrautin þyngri að tryggja kjarasamninga nú sem gerðir verða á grundvelli verðstöðugleika þar sem traust skorti á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Vinnumarkaðurinn og stjórnvöld eru ekki sammála um efnahagsstefnuna en sameiginleg sýn á hana er forsenda trausts á milli aðila, segir í tilkynningu. Það verði því „að vera forgangsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar að stilla betur saman strengi og koma í veg fyrir hörð átök.“

Ítarlegri umfjöllun má finna á vef SA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×