Innlent

VG og Framsókn stilla saman strengi sína

Höskuldur Kári Schram skrifar
Katrín segir að VG, Framsókn og Samfylkingin hafi fundið það í fjárlagaumræðum að flokkarnir ættu ýmislegt sameiginlegt.
Katrín segir að VG, Framsókn og Samfylkingin hafi fundið það í fjárlagaumræðum að flokkarnir ættu ýmislegt sameiginlegt. vísir/ernir
Forystumenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks hafa átt í óformlegum viðræðum milli jóla og nýárs um mögulegt samstarf. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að menn séu fyrst og fremst að ræða um sameiginleg stefnumál en ekki sé verið að undirbúa nýtt tilboð í stjórnarmyndun.

Morgunblaðið greinir frá þessum viðræðum í dag en þar fullyrt að forystumenn flokkanna tveggja séu skoða nýtt tilboð til sjálfstæðismanna um myndun ríkisstjórnar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að viðræðurnar séu fyrst og fremst óformlegar.

„Við í VG höfum átt samtöl við bæði Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna milli jóla og nýárs um hvaða félagslegu áherslur þessir flokkar eiga sameiginlegast. Hugsunin er kannski sú að Framsókn hefur auðvitað ekki átt aðild að viðræðum hingað til og þessir þrír flokkar fundu það í fjárlagaumræðum að það voru ákveðnir þættir sem þeir áttu sameiginlegt. Þannig að við höfum meira verið í slíku óformlegu samtali,“ segir Katrín.

„Þetta hafa meira verið óformleg samtöl um hvaða málefni þessir flokkar eru sammála um. Hvort sem það er saman í stjórnarandstöðu eða hugsanlega einhverri stjórn. Þannig að þetta hefur verið meira á því stigi,“ bætir hún við.

Aðspurð hvort það sé grundvöllur fyrir samstarfi í stjórnarandstöðu eða ríkisstjórn, af samtölum flokkanna að dæma, segir Katrín að flokkarnir eigi ýmislegt sameiginlegt.

„Ég held að þessir flokkar eigi margt sameiginlegt þegar kemur að áherslum á sviði félagslegs jafnaðar og uppbyggingu velferðarkerfis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×