Innlent

Vetrarveður á Akureyri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Akureyri fyrr í kvöld.
Frá Akureyri fyrr í kvöld. Vísir/SA
Líkt og myndin hér fyrir ofan gefur til kynna er orðið ansi vetrarlegt á Akureyri. Þar hefur snjóað töluvert í dag en spáð var talsverðri eða mikilli snjókoma norðan til á landinu í dag.

Viðmælendur Vísis á Akureyri segja að byrjað hafi að snjóa fyrir alvöru eftir hádegi en þangað til í dag hefur bærinn verið snjólaus að mestu síðustu þrjár vikurnar eftir veturinn. Hvasst er og lítið skyggni en snjókoman er bæði þykk og blaut. Þá hefur krap myndast á götum bæjarins.

„Það er svosem ekkert óeðlilegt að svona veður komi í apríl og svo koma svona veður annað slagið í maí líka,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það er búið að vera svolítið lengri kafli með nokkuð góðu veðri, þannig að þetta eru svona viðbrigði fyrir flesta.“

Flugi Flugfélags Íslands til og frá Akureyri var frestað í kvöld vegna veðurs og þá eru þjóðvegir víða um land lokaðir vegna ófærðar. Nú er lokað á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Laxárdalsheiði, Þverárfjalli, Hófaskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði.

Veðurspá fyrir kvöld og morgun

Vaxandi norðanátt og ofankoma, 18-23 metrar á sekúndu síðdegis og talsverð eða mikil snjókoma. Hiti nálægt frostmarki. Norðvestan 8-15 metrar á sekúndu og éljagangur á morgun með kólnandi veðri. Hæg breytileg átt annað kvöld og þurrt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×