Lífið

Veltir fyrir sér hvort ákvörðunin hafi verið röng: „Af hverju fæ ég ekki að tala við barnið mitt?“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Maðurinn vill ekki koma fram undir nafni.
Maðurinn vill ekki koma fram undir nafni. vísir/getty
„Mig langar að spyrja þig kæra barnsmóðir –af hverju fæ ég ekki að tala við barnið mitt?“ Þessi orð skrifar maður í aðsendri grein á síðu Kvennablaðsins. Greinin hefur vakið mikla athygli og fjölmargir deilt henni á Facebook og öðrum samskiptamiðlum.

Í greininni fjallar maðurinn um það að hann hafi ekki fengið að tala við barnið sitt í tvö ár, eftir að hann flutti til útlanda.

„Það var allt í lagi á milli okkar þegar ég bjó á Íslandi, við vorum ekki sammála um margt, við vorum samt sammála um að barninu okkar ætti að líða vel og það væri fyrir öllu. Ég eignaðist síðan kærustu og tók þá afdrifaríku ákvörðun að flytja af landi brott sem var einhver erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið, sérstaklega vegna þess að barnið okkar var bara þriggja ára,“ segir maðurinn.

Tvö ár liðin

Nú eru liðin tvö ár og veltir hann því oft fyrir sér hvort ákvörðun hafi verið röng.

„Þú veist samt vel að ég var atvinnulaus og ég þurfti að skapa mér framtíð eins og allir aðrir. Að mér buðust tækifæri erlendis sem mér buðust ekki hér. Þú leyfðir mér að tala við hana einu sinni í viku og ég spurði þig margoft hvort hún mætti tala við mig í gegnum Skype og þú sagðir að hún fengi það ekki. Ég bað þig um ljósmyndir af henni og vildi fylgjast með líðan hennar og heilsu en þú svaraðir því engu.“

Í dag er umrætt barn fimm ára gamalt.

„Staðan nú er sú að þú vilt ekki leyfa mér að tala við hana og þú vilt ekki einu sinni svara foreldrum mínum eða systkinunum. Ég er búinn að hringja margoft og líka búinn að senda fullt af tölvupóstum til þín og þú svarar aldrei. Í gær fékk ég skeyti frá þjóðskrá Íslands um að þú sért að sækja um nafnabreytingu á föðurnafni barnsins okkar og hún muni koma til með að bera þitt föðurnafn –Ég er ennþá orðlaus,“ segir maðurinn og bætir því við að hann hafi reynt að gera samkomulag við barnsmóður sína síðasta sumar en hún hafi alltaf neitað.

„Við þurfum að hugsa um barnið og ekki um okkar eigingirni“

„Ég skil þig ekki, barnsmóðir, hvers vegna þú vilt ekki leyfa barninu okkar að eiga eðlilegt samband við mig? Ég veit að ég bý ekki nálægt henni og ég veit að þú varst mjög reið þegar ég tók þá ákvörðun að flytja út. Þú verður að skilja að við þurfum að hugsa um barnið og ekki um okkar eigingirni eða reiði út í fortíðina. Litla stelpan okkar, sem við elskum bæði, er fórnarlambið og þú ert ekki að gera henni gott með því að loka á mig eða á fjölskyldumeðlimi mína.“

Maðurinn óskar konunni velfarnaðar í lífi sínu og segist aðeins vona að hún eigi heilbrigða framtíð og barnið þeirra sé ánægt.

„Ég bið þig bara um að hugsa um velferð stelpunnar og ég vil ekki þurfa að segja henni þegar hún verður eldri að þú hafir gert allt til að hindra að við feðginin ættum eðlilegt samband. Þrátt fyrir að ég sé mjög reiður og sár út í þig þá ertu samt móðir dóttur minnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×