Innlent

Veitingastaðurinn Hornið 35 ára í dag

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Hornið vann mikilvægt frumkvöðlastarf í íslenskri pitsugerð á sínum tíma.
Hornið vann mikilvægt frumkvöðlastarf í íslenskri pitsugerð á sínum tíma. Vísir/Stefán
Hjónin Jakob Hörður Magnússon og Valgerður Jóhannsdóttir opnuðu Hornið, ítalskan veitingastað, við Hafnarstræti 15 í miðbæ Reykjavíkur fyrir 35 árum í dag.

Aðspurður segir Jakob Hörður að velgengni staðarins stafi af vinnusemi, góðu starfsfólki og ánægðum kúnnum.

Á þeim 35 árum sem veitingahúsið hefur verið rekið finnst Jakobi þróunin í veitingastaðaflórunni í miðbænum sem og hin stóraukna umferð ferðamanna um landið áhugaverð.

Segja má að Hornið hafi unnið mikilvægt frumkvöðlastarf hvað ítalska matreiðslu varðar.

„Allir þessir pastaréttir, lasanja og fleira, fólk vissi varla hvað þetta var. Svo var þetta náttúrulega fyrsti staðurinn sem var með pitsur sem voru bakaðar beint fyrir framan gestina,“ segir Jakob.

Matseðill Hornsins hefur ekki breyst mikið gegnum árin. Þó fannst landsmönnum matreiðslustíllinn ítalski heldur nýstárlegur við tilkomu staðarins.

Sumir réttirnir hafa eflaust komið landanum heldur spánskt fyrir sjónir, en þar má helst nefna snigla í hvítlaukssmjöri.

Gestum Hornsins verður boðið upp á ítalska tíramísú-afmælisköku í eftirrétt í tilefni 35 ára áfangans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×