Viðskipti innlent

Veitingastaðarisinn Foodco hagnast

Foodco rekur Eldsmiðjuna ásamt ótal öðrum veitingastöðum.
Foodco rekur Eldsmiðjuna ásamt ótal öðrum veitingastöðum.
Foodco, sem rekur veitingastaði undir merkjum American Style, Saffran, Eldsmiðjunnar, Aktu-Taktu, Pítunnar og Greifans á Akureyri, hagnaðist um 53,3 milljónir króna í fyrra.

Það er mun minni hagnaður en árið áður þegar hann nam 371 milljón króna. Þá munaði þó mestu um 213 milljóna króna gengishagnað. Alls voru eignir Foodco bókfærðar á 1,8 milljarða króna um síðustu áramót og eigið fé félagsins var 690 milljónir króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi þess.

Athygli vekur að samdráttur hefur verið í sölu hjá Foodco á undanförnum árum. Árin 2008 og 2009 seldu veitingastaðir félagsins fyrir 2,9 milljarða króna hvort árið. Sú sala var tæplega 2,7 milljarðar króna árið 2010 og rúmlega 2,4 milljónir króna í fyrra.

Foodco keypti Shiraz ehf., sem á og rekur Saffran-veitingastaðina, í október 2011. Kaupverðið var ekki gefið upp á sínum tíma en félagið var bókfært á 323,5 milljónir króna í bókum Foodco rúmum tveimur mánuðum eftir að kaupin áttu sér stað.

Foodco á einnig Þorp ehf., sem er félag utan um fasteignir þeirra matsölustaða sem félagið á og rekur. Þorp tapaði 20,7 milljónum króna í fyrra og eigið fé þess er neikvætt um 201 milljón króna. Félagið hagnaðist hins vegar um 700 milljónir króna árið 2010 eftir að hafa náð samkomulagi við viðskiptabanka sinn. Samkvæmt ársreikningi voru eftirgefnar skuldir/gengismunur alls 885 milljónir króna það árið.

Eigendur Foodco eru Þórarinn Ragnarsson (40 prósent), félag í eigu Jóhanns Arnar Þórarinssonar (40 prósent), Óttar Þórarinsson (10 prósent) og félag í eigu Bjarna Stefáns Gunnarssonar (10 prósent). - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×