Viðskipti innlent

Varlega sé farið í baráttu gegn kennitöluflakki

Svavar Hávarðsson skrifar
Skattaundanskot eru metin á tugi milljarða - kennitöluflakk er hluti af vandamálinu.
Skattaundanskot eru metin á tugi milljarða - kennitöluflakk er hluti af vandamálinu. fréttablaðið/valli
Samtök atvinnulífsins vilja að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Í frétt á vef samtakanna kemur fram að þetta sé afar mikilvægt og þó svo að „um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum.“

Þar segir jafnframt að það að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja sé ekki til árangurs fallið og „mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.“

Í þessu samhengi minna samtökin á umsögn sína varðandi drög að frumvarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um ársreikninga þar sem gerðar eru verulegar athugasemdir við nokkur atriði frumvarpsins en með því er ætlunin að leiða í lög tilskipun Evrópusambandsins um sama efni. Frumvarpið gangi mun lengra í kröfum gagnvart íslenskum fyrirtækjum en almennt er gert ráð fyrir í ESB.

Þar segir að stjórnvöld verði að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs, til dæmis herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir að skipulögðum undanskotum líkt og með kennitölu­flakki. Það sé grundvallarréttur einstaklinga að sjá sér og sínum farborða, leita sér atvinnu og stofna til reksturs í því skyni. Þessi réttur sé staðfestur í stjórnarskrá Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×