Innlent

Vantar 300 starfsmenn í skólana: "Stjórnmálamenn verða að taka þetta mjög alvarlega“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs HÍ, telur styttingu náms ekki lausnina þegar kemur að skorti á kennurum.
Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs HÍ, telur styttingu náms ekki lausnina þegar kemur að skorti á kennurum. Vísir/Daníel Rúnarsson
Forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands segir samfélagslega ábyrgð skorta þegar komi að stöðu mála í grunnskólum og leikskólum landsins. Ekki hefur verið ráðið í hátt í 300 stöður í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum í Reykjavík nú þegar skólahald er í þann mund að hefjast. 

Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að 17. ágúst hafi átt eftir að ráða í 102 stöðugildi í leikskólum Reykjavíkur, 43 í grunnskólum borgarinnar og 127 á frístundaheimili. 

Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, segir vandamálið margþætt. Afar fjölmennir árgangar séu að hefja skólagöngu, nýnemum í kennaranámi hafi fækkað undanfarin ár og því til viðbótar séu stórir árgangar kennara að fara á eftirlaun.

Nýnemum í grunnskólakennaranámi hefur fækkað frá 211 sem innrituðust árið 2008 í 79 sem hefja nám í haust.  Í leikskólakennaranáminu voru 88 sem innrituðust árið 2008 en nú eru 34 nemar sem innritast á fyrsta ár. 

Hins vegar hefur orðið sú breyting á undanförnum árum að töluverður hópur fólks með BA/BS gráður í ýmsum greinum kemur í framhaldsnám á Menntavísindasviði og lýkur kennaraprófi þannig. Í ár eru 38 nemar í framhaldsnámi í leikskólakennarafræðum og 97 í grunnskólakennarafræðum.

 

Töluverður skortur er á leikskólakennurum.Vísir/Daníel
Meiri fækkun en reiknað var með

Lög um fimm ára kennaranám tóku gildi árið 2011 og fækkaði nemendum í kjölfarið að sögn Jóhönnu. Það hafi verið viðbúið.

„Það gerðist líka á sínum tíma þegar leikskólakennaranámið færðist á háskólastig og grunnskólakennaranámsið sömuleiðis. Það er eðlileg þróun,“ segir Jóhanna. Svipuð umræða kom upp fyrir þremur árum vegna skorts á leikskólakennurum og var bent á að ef um skort á læknum væri að ræða yrði tillagan aldrei að stytta nám lækna.

Minni sókn í námið allra síðustu ár hafi hins vegar komið á óvart.

„Fækkunin er meiri heldur en við reiknuðum með,“ segir Jóhanna. Stærsta vandamálið sé neikvæð umræða um kennarastéttina en hafa verði í huga að kennaranám sé samfélagslegt verkefni.

„Undirstaða velferðar hverrar þjóðar er að hafa góða kennara. Stjórnmálamenn verða að taka þetta mjög alvarlega. Hvað ætlum við að gera sem samfélag til að fá vel menntaða kennara til að starfa í skólum landsins?“

Hún bætir við að ýmis úrræði séu til og leiðir hægt að fara en vilja og fjármagn þurfi til. Forgangsraða þurfi hlutunum.


Frá útskrift í Háskóla Íslands.
Þarf að verða virðingarstarf á Íslandi

Jóhanna segir kennaranámið í HÍ afar gott. Gerð hafi verið úttekt á náminu af erlendum sérfræðingum fyrir tveimur árum og breytingar til batnaðar verið gerðar í kjölfarið.

„Við erum með gæðanám en við í háskólanum stýrum ekki umræðunni í samfélaginu, um kennaranámið og kennarastarfið,“ segir Jóhanna og vísar til neikvæðrar umræðu um störf kennara í fjölmiðlum. 

„Auðvitað fælir það frá.“

Aðspurð hvort að það séu þá lág laun sem skipti mestu sé það hluti en ekki aðalatriðið. Í því samhengi bendir hún á Finnland þar sem kennaranám sé afar eftirsótt.

„Þar er mikil virðing borin fyrir störfum kennara og til þess tekið að þeir sem gegnga störfum kennara séu mjög áhrifamiklir. Það eru ekki launin sem fólk er að tala um heldur er þetta virðingastarf í þjóðfélaginu og bestu nemendurnir sækja í kennaranámið. Helmingur þeirra sem sækir um kennaranám í stærstu háskólunum í Finnlandi kemst ekki inn.“

Umræðuna og samfélagslega ábyrgð um mikilvægi kennaranáms og góðra kennara vanti hér á landi.

Gamli Kennaraskólinn.Mynd af vef Fornleifaverndar
Stórir árgangar kennara að hverfa á braut

Afar fjölmennir árgangar íslenskra barna eru í leikskólum landsins og að hefja grunnskólagöngu. Á sama tíma sækja færri í kennaranám og stór hópur að fara á eftirlaun.

„Það eru mjög fjölmennir árgangar kennara að detta út. Stærstu árgangarnir í gamla Jennaraskólanum, sem útskrifuðust 1972 og 1973,“ segir Jóhanna. Þar hverfi á braut fjöldi reynslumikilla kennara og á sama tíma eru alltof fáir að sækja sér kennaramenntun.

„Þessi skortur á kennurum er grafalvarleg staða og ótrúlegt að stjórnmálamenn hafi ekki sett þetta á oddinn núna þegar kosningar eru framundan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×