Innlent

"Við eigum ekki að slá af kröfunum“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs HÍ, segir rökin fyrir aukinni menntun leikskólakennara vera metnaður fyrir skólastarfi á Íslandi.
Jóhanna Einarsdóttir, forseti menntavísindasviðs HÍ, segir rökin fyrir aukinni menntun leikskólakennara vera metnaður fyrir skólastarfi á Íslandi. Mynd / Daníel Rúnarsson
„Þegar Landspítalinn á í vandræðum vegna skorts á læknum dettur engum í hug að stytta læknanámið en þegar það verður kennaraskortur þá er fyrsta svarið að stytta námið,“ segir Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur sagt að til að mæta skorti á faglærðum leikskólakennurum á Íslandi þurfi að endurskoða námið og bjóða styttri námsleiðir. Aðsóknin í leikskólakennaranám hrundi eftir að það var lengt úr þremur árum í fimm ár.

Jóhanna segir vel menntaða leikskólakennara vera nauðsynlega í flóknara samfélagi. „Börn alast upp við aukið fjölmenningarsamfélag, tækni og tækifæri. Kennarar standa frammi fyrir miklum áskorunum, eru með fjölbreytta nemendahópa og við gerum kröfur um að öllum börnum sé sinnt og mætt.“

Hún bætir við að leikskólastarf hafi breyst mikið á síðustu tveimur áratugum þar sem almennt séu öll börn frá tveggja ára aldri í leikskólum stóran hluta dagsins. Börnunum fjölgar og því segir Jóhanna það grafalvarlegt mál að leikskólakennurum fækki.

„Það er forgangsmál hjá okkur að fjölga nemendum í kennaranámi. Við erum að vinna að ýmsum hugmyndum til að gera námið meira spennandi og aðgengilegra fyrir fólk en við eigum ekki að slá af kröfunum. Við viljum vera í fararbroddi í menntun og bera okkur saman við þá sem standa sig best í menntamálum á heimsvísu,“ segir Jóhanna.

 Hvað finnst starfandi leikskólakennurum um málið?

„Mér finnst að leikskólakennarar eigi að fá kennsluréttindi eftir þriggja ára nám,“ segir Elín Anna Lárusdóttir, leikskólakennari á Laugasól.

„Svo ætti kerfið að hvetja fólk til að fara í mastersnám og sérhæfa sig. En mér finnst mikilvægt að fólk fái starfsreynslu áður en það velur sérhæfingu.“

„Það þarf að kynna starfið fyrir fólki,“ segir Emilía Rafnsdóttir, leikskólakennari á Öskju.

„Ég valdi mér námið þrátt fyrir léleg laun. Fólk þarf að kynnast því hvað þetta er yndislegur starfsstaður svo það velji sér námið á réttum forsendum. En námið á að vera fimm ár og launin þarf að hækka.“

„Námið gefur djúpa og góða þekkingu og er mjög þarft,“ segir Júlíana Tyrfingsdóttir, leikskólastjóri á Álfaborg.

„Við erum fagfólk í okkar starfi og það á ekki að gefa afslátt af því. Hlutverk okkar sem erum útskrifuð er að tala upp kennarastéttina, en ekki niður.“

„Ég prófaði að vinna á leikskóla, mér fannst það skemmtilegt og krefjandi starf og vildi ekki vinna á leikskólanum án réttinda,“ segir Hanna Rós Jónasdóttir leikskólakennari.

„Ég velti fyrir mér laununum en maður verður að vera bjartsýnn og skella sér í næstu kjarabaráttu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×