Innlent

Valdimar sakfelldur fyrir skemmdarverkin í Bolungarvík

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Valdimar Lúðvík Gíslason segir að um hafi verið að ræða slysagildru fyrir eldri borgara sem þurfi aðfara í ráðhúsið og þyrfti þá að fara út á götuna og setja sig í stórhættu.
Valdimar Lúðvík Gíslason segir að um hafi verið að ræða slysagildru fyrir eldri borgara sem þurfi aðfara í ráðhúsið og þyrfti þá að fara út á götuna og setja sig í stórhættu.
Valdimar Lúðvík Gíslason var í Héraðsdómi Vestfjarða í gær dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld eignaspjöll á friðuðu húsi í Bolungarvík. Honum var jafnframt gert að greiða Bolungarvíkurkaupstað rúmlega eina milljón króna í skaðabætur.

Valdimar var gefið að sök að hafa eyðilagt friðað hús í skjóli nætur aðfaranótt mánudagsins 7. júlí 2014. Hann játaði að hafa unnið skemmdarverk á húsinu en sagði að um væri að ræða slysagildru fyrir eldri borgara og því hafi hann ákveðið að taka málin í sínar hendur. Hann sagði jafnframt að húsið hefði verið til mikillar óþurftar lengi þar sem það standi út í miðja götu og af því sé mikil slysahætta. Það hafi fyllt mælinn þegar hann hafi næstum orðið fyrir bíl við húsið.

Sjá einnig:„Ég er með góðan málstað, því ég er að verja fólk"

Í skýrslutöku lögreglu sagði Valdimar að hann hefði talið að ef húsið yrði skemmt myndi bærinn rífa það, því bærinn hafi keypt húsið í þeim tilgangi að láta fjarlægja það. Sagðist hann hins vegar ekki hafa verið meðvitaður um að húsið væri friðað.

Valdimar er fæddur árið 1939, 78 ára gamall. Hann hefur ekki verið dæmdur til refsingar áður og var litið til þess við ákvörðun refsingarinnar. Dómurinn horfði til þess að Valdimar til málsbóta, að hann vann verkið af óeigingjörnum hvötum og taldi sig vera að verja líf og heilsu aldraðra og veikra samborgara sinna og reyna að knýja fram breytingar á aðstæðum innan sveitarfélagsins sem hann taldi hættulegar, líkt og það er orðað í niðurstöðu dómsins.

Þá leit dómurinn jafnframt til aldurs hans og var Valdimar dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×