Innlent

Útkallið í Hlíðarhjalla: Gefa ekki upp hvar eigandi íbúðarinnar er staddur

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Vísir/Vilhelm
Lögregla vill ekki gefa upp hvar eigandi íbúðarinnar í Hlíðarhjalla, sem setið var um í sex klukkustundir í gær, er niðurkominn. Það er áfram til rannsóknar hvort hvellirnir sem heyrðust í kringum íbúðina í gær hafi verið skothvellir eða eitthvað annað, og þá hvað.

„Við erum ekki með mikið af gögnum sem við getum stuðst við,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, stöðvarstjóri lögreglu í Kópavogi og Breiðholti. „Það er náttúrulega ýmislegt sem framkallar hvell. En fólkið telur sig hafa heyrt skothvell og ég ætla ekki að halda öðru fram þar til ég get sannað það.“

Náðist í manninn áður en farið var inn í íbúðina

Lögreglu bárust nokkrar tilkynningar um að skoti hefði verið hleypt af í íbúðinni í gær en íbúðin reyndist mannlaus. Lögregla hafði mætt á vettvang degi áður vegna þess að íbúar fjölbýlishússins höfðu fundið högl í garði hússins og girðingin ber þess merki að það hafi verið skotið á hana með haglabyssu.

„Þá kemur líka í ljós að talið er að eigandi íbúðarinnar sé mögulega ekki heima hjá sér og hafi ekki verið,“ segir Ásgeir. „Það tók tíma að finna út hvar hann væri og að ná í hann til að ræða við hann.“

Það náðist ekki í manninn fyrr en liðið var á umsátrið í gærkvöldi. Þá gat hann sagt lögreglu að hann væri ekki í íbúðinni og gaf þeim leyfi til að fara þangað inn. Þar var enginn en lögregla lagði þar hald á haglabyssu.

Höglin í garðinum rannsökuð sem sérstakt mál

Ásgeir segir manninn ekki í haldi lögreglu en að lögregla viti nákvæmlega hvar hann er. Hann gefur ekkert upp um það hvort maðurinn sé erlendis eða á landinu.

„Það er bara hans einkamál hvar hann er,“ segir Ásgeir.

Eigandi íbúðarinnar er augljóslega ekki grunaður um að hafa hleypt af skotunum, ef einhver voru, í gær. Það er þó ekki útilokað, miðað við það að höglin sem fundust í garðinum gætu verið nokkurra vikna gömul, að hann hafi hleypt af þeim skotum.

Þau skot eru rannsökuð sem sérstakt mál. Ásgeir vill ekki gefa upp hvort maðurinn sé grunaður um þann verknað en staðfestir þó að haglabyssan sem fannst í íbúðinni sé í eigu mannsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×