Viðskipti innlent

Útflutningur á áfengi hefur tvöfaldast frá 2012

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sex innlendir bjórframleiðendur selja samanlagt yfir 25 mismunandi tegundir af bjór til útlanda.
Sex innlendir bjórframleiðendur selja samanlagt yfir 25 mismunandi tegundir af bjór til útlanda. Vísir/Pjetur
Útflutningur á áfengi hefur meira en tvöfaldast á tveimur árum sem má helst rekja til meiri sölu á bjór, brennivíni, gini og vodka til útlanda.

Rúm 764 tonn af áfengi voru flutt út á fyrstu sex mánuðum þessa árs en 334 tonn á fyrri helmingi 2012, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, sem gefur magnið eingöngu upp í tonnum. Verðmæti útflutningsins jókst úr 74 milljónum króna í 161 milljón. Á fyrstu sex mánuðum 2014 fór mest til Bretlands, um 369 tonn, og 265 tonn enduðu í Bandaríkjunum.

Samanburðurinn sýnir að sala á bjór til útlanda hefur meira en fimmfaldast. Á fyrri helmingi þessa árs fóru tæp 419 tonn út en 77 tonn á tímabilinu frá janúar til loka júní 2012. Um 7,6 tonn af brennivíni voru flutt út á fyrstu sex mánuðum ársins en 562 kíló árið 2012.

Óli Rúnar Jónsson, útflutningsstjóri Ölgerðarinnar, segir eftirspurn eftir íslenskum bjór vera vaxandi. Um tvö ár séu síðan fyrirtækið hóf að leggja aukna áherslu á útflutning.

„Brennivínið hefur farið til Færeyja í mörg ár og það hefur alltaf verið einhver minni háttar útflutningur til svæða eins og Manitoba í Kanada. Nú er varan hins vegar komin inn í áfengisverslun sænska ríkisins sem er allavega annar af tveimur stærstu áfengiskaupendum í heimi. Frá síðustu áramótum hefur það einnig verið fáanlegt í Bandaríkjunum og við erum að fara að detta inn á fleiri staði í Kanada,“ segir Óli.

Tæp 22 tonn af gini fóru héðan á fyrri helmingi 2012 en rúm 40 tonn á fyrstu sex mánuðum 2014. Fyrirtækið Eimverk Distillery hóf útflutning á gini í maí síðastliðnum. Egill Gauti Þorkelsson, einn af eigendum fyrirtækisins, segir að varan sé nú fáanleg í sjö löndum.

„Mikið af okkar vörum fer utan og við erum að byggja upp dreifingarnet sem nær um allan heim og það er hægt og bítandi að stækka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×