Innlent

Upplifa stefnuna um skóla án aðgreiningar sem innistæðulausa mannúð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Olga Huld Gunnarsdóttir gerði mastersritgerð sína í félagsráðgjöf um upplifun foreldra barna með námserfiðleika af því að vera í skóla án aðgreiningar.
Olga Huld Gunnarsdóttir gerði mastersritgerð sína í félagsráðgjöf um upplifun foreldra barna með námserfiðleika af því að vera í skóla án aðgreiningar. VÍSIR/anton brink
„Allir þessir foreldrar áttu það sameiginlegt að hafa á einhverjum tímapunkti grunnskólagöngu barna sinna þurft að berja í borðið og hóta til að börnin þeirra fengu þá þjónustu sem þau höfðu rétt á. Þá voru þau sammála um að þessi hugmyndafræði, skóli án aðgreiningar, væri ekki að virka og að börnin þeirra fengu ekki sömu tækifæri í þessari menntastefnu og börn sem ekki eru með námserfiðleika“

Þetta segir Olga Huld Gunnarsdóttir, meistaranemi í félagsráðgjöf, um niðurstöður rannsóknar sem hún gerði í náminu og greinir frá í meistararitgerð sinni. Ritgerðin ber heitið „Skóli án aðgreiningar, innistæðulaus mannúð“ Reynsla og upplifun foreldra barna með námserfiðleika á stuðningi í grunnskólum, en leiðbeinandi Olgu var Dr. Sigrún Harðardóttir.

Olga segir að heiti ritgerðarinnar vísi í orð föður sem tók þátt í rannsókninni en Olga ræddi við 11 foreldra 13 barna sem stunda nám í fjórum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Börnin voru á aldrinum 8 til 16 ára eða í 3. til 10. bekk. Þó að úrtakið sé ekki stórt má ætla að niðurstöðurnar veiti engu að síður ákveðna innsýn í skólakerfið og það hvaða þjónusta og úrræði eru þar í boði fyrir börn með námserfiðleika.

Vantar meira fjármagn inn í skólana

Að sögn Olgu eru orð föðurins um það að skóli án aðgreiningar sé innistæðulaus mannúð mjög lýsandi fyrir niðurstöður rannsóknarinnar.

„Hann er í raun og veru að meina að mannúðin er til staðar með góðu starfsfólki innan skólans en innistæðan til þess að stefnan virki er ekki til staðar. Til að skóli án aðgreiningar virki þarf meira fjármagn inn í skólana og aðgengi að fagfólki. Það væru einstaklingarnir í kerfinu sem virkuðu en ekki kerfið sjálft. Kennarar eru tilbúnir að gera ýmislegt til að hjálpa börnum með námserfiðleika en það er engin innistæða, það eru ekki til peningar,“ segir Olga.

Það sem kom henni mest á óvart var sá baráttuvilji sem foreldrarnir höfðu til að berjast fyrir réttindum barna sinna.

„Öll höfðu þau  á ein eða annað hátt þurft að fara mismunandi leiðir til að fá þjónustu fyrir barnið sitt. Öllum þótti þeim leiðinlegt að hafa þurft að vera með hótanir og leiðindi en þá fyrst fóru þeir að upplifa að börnin þeirra fengu þá aðstoð sem þau áttu rétt á,“ segir Olga og veltir því upp hvernig sé þá komið fyrir þeim börnum sem ekki eiga foreldra sem hafa orku eða þrek til að berjast í kerfinu.

Heimanám skapaði mikið álag á heimilinu

„Í framhaldinu væri áhugavert að rannsaka frekar þann baráttuvilja sem einkennir þá foreldra sem þátt tóku í rannsókninni, þá með sérstakri áherslu á hvort munur sé á stuðningi fyrir börn með námserfiðleika sem eiga foreldra sem láta í sér heyra eða börn með námserfiðleika sem láta ekki í sér heyra. Eru þau að fá sama stuðning í skólunum eins og börn með námserfiðleika sem eiga foreldra sem standa endalaust í stríði við skólann?“

Eitt af því sem allir foreldarnir nefndu einnig var mikið álag á heimilinu vegna heimanáms barnanna.

„Þau upplifðu að heimanám væri mikla áskorun sem hefði áhrif á þeirra hlutverk sem foreldrar. Flestir efuðust um sína eigin námsgetu til að geta aðstoðað barn sitt með heimanámið. Þeir upplifðu að heimanám væri mikið álag á heimilið sem skapaði togstreitu og hefði áhrif á samskipti þeirra og barnanna,“ segir Olga en bendir jafnframt á að það hafi verið athyglisvert að sjá muninn á þeim stuðningi sem yngri börnin fengu miðað við það sem börnin sem komin voru upp á unglingastig fengu.

Börnin geti ekki sýnt eða nýtt sína styrkleika

„Það virtist vera sem þessi barátta foreldrana við kerfið og að fá heimanámið heim hafi verið mikið á yngra stiginu en þegar börnin voru komin á unglingastigið þá var eins og það væri meira hlustað á foreldrana. Niðurstöður sýndu að munur væri á upplifun foreldra barna í 8. - 10. bekk og foreldra barna í 3. – 7. bekk. Munurinn lá aðallega í því að foreldrar barna í 8. – 10. bekk voru almennt jákvæðari gagnvart þeirri þjónustu sem börnin þeirra fengu vegna þess að börnin þeirra voru komin með aðlagað námsefni og unnu þar af leiðandi allt námsefnið í skólanum eða í námsveri á meðan börnin í 3. – 7. bekk voru enn að koma með námsefnið heim. Þessi munur leiddi til þess að foreldrar barna í 8. - 10. bekk upplifðu ekki eins mikið álag á heimilið eins og foreldrar barna í 3. – 7. bekk gerðu deild.“

Þá hafi foreldrarnir allir verið sammála um það að börnin þeirra fengu ekki tækifæri í þeirri menntastefnu sem rekin væri undir merkjum skóla án aðgreiningar og að börn með námserfiðleika gætu ekki sýnt eða nýtt sína styrkleika í menntakerfi sem geri ráð fyrir að öll börn þurfi að vera eins. Auk þess var það upplifun foreldrana að það þyrfti meira af fagfólki inn í skólana. Með því væri hægt að fá upplýsingar og leiðbeiningar frá fagfólki.

„Þar töluðu þau um sálfræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og svo framvegis og að þetta fagfólk þyrfti að vera aðgengilegra og nær börnunum sjálfum og foreldrum þeirra,“ segir Olga.


Tengdar fréttir

Skóli án aðgreiningar gengur ekki upp í núverandi mynd

Foreldrar, skólastjórnendur, kennarar og aðrir hagsmunaaðilar ­sameinast í áskorun til stjórnvalda um að bæta þjónustu við börn í grunnskólum. Fjórðungur barna í grunnskólum þurfa sérkennslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×