Erlent

Um 900 kólerutilfelli í Suður-Súdan

Birta Björnsdóttir skrifar
Kólerutilfellin bætast ofan á átök og uppskerubrest í landinu.
Kólerutilfellin bætast ofan á átök og uppskerubrest í landinu. Vísir/AFP
Um níu hundruð kólerutilfelli hafa komið upp í Juba, höfuðborg Suður-Súdan, og spáir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að þeim eigi eftir að fjölga enn meira á næstu dögum.  Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu frá UNICEF í Suður-Súdan. Stefán Ingi Stefánsson er framkvæmdastjóri UNICEF hér á landi.

„Á tveimur vikum hefur þetta kólerutilfelli stóraukist í borginni,“ segir Stefán Ingi. „Þetta er nýtt og stórhættulegt og það er verið að gera allt sem hægt er til að stöðva útbreiðsluna. En því miður mun hún halda áfram eitthvað næstu daga og vikur.“

Kólera er bakteríusýking í þörmum sem berst í menn með menguðu vatni og matvælum. Einkennin eru heiftarlegur niðurgangur sem getur á stuttum tíma leitt til ofþornunar og dauða ef ekki er gripið fljótt til aðgerða.

„Meirihlutinn af vatninu kemur úr Níl, sem rennur í gegnum Juba. Og það er smit þar þannig að það þarf að finna aðra leið til að koma vatninu inn í borgina.“

UNICEF hefur nú sett upp meðferðarstöð á sjúkrahúsi í Juba þar sem sjúklingum er sinnt og nauðsynlegum hjálpargögnum dreift. Aðrar aðgerðir UNICEF á svæðinu eru meðal annars að útvega hreint vatn og hreinlætisaðstöðu, sölt og lyf, eldsneyti til að tryggja meðferðastöðvum rafmagn, þjálfun heilsugæslufólks og fleira.

„Ástandið er grafalvarlegt. Því það er hættulegt að fá svona alvarlegan sjúkdóm ofan í átökin, næringarskortinn og uppskerubrestinn í landinu,“ segir Stefán Ingi.


Tengdar fréttir

Samið um frið í Suður-Súdan

Samkomulagið kallar á að öll vopn verði lögð niður innan sólarhrings og tímabundinni ríkisstjórn verði komið á fót sem fyrst.

Myrtu tvö hundruð manns í Suður-Súdan

Uppreisnarmenn í Suður-Súdan í Afríku myrtu hundruð óbreyttra borgara í bænum Bentiu í síðustu viku en Sameinuðu þjóðirnar greina frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×