Erlent

Tyrkir gerðu loftárásir á Kúrda í Írak og Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Eftirmálar árásanna í Sýrlandi.
Eftirmálar árásanna í Sýrlandi. Vísir/AFP
Minnst tuttugu Kúrdar féllu í loftárásum Tyrkja í Írak og Sýrlandi í dag. Í Sýrlandi beindust árásirnar gegn meðlimum YPG, sem leiða baráttuna gegn Íslamska ríkinu og eru bandamenn Bandaríkjanna. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa áhyggjur af árásunum.

Í Írak féllu sex meðlimir Peshmerga sveitanna svokölluðu, sem eru að mestu vinveitt Tyrklandi. AFP fréttaveitan segir útlit fyrir að sú árás hafi verið slys.

Yfirvöld í Tyrklandi segja árásirnar hafa beinst gegn „hryðjuverkamönnum“ og heita því að halda árásum áfram. Þeir segja sýrlenska Kúrda tengjast Verkamannaflokki Kúrda (PKK) í Tyrklandi sem hafa í áratugi barist fyrir sjálfstæði í austurhluta Tyrklands.

Írakar segja árásina þar í landi vera brot á fullveldi Írak og alþjóðalögum. PKK hefur verið með viðveru við Sinjarfjall í Írak eftir að þeir komu Jasídum til aðstoðar eftir innrás Íslamska ríkisins í Írak sumarið 2014. 

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Mark Toner, segir Bandaríkin hafa komið áhyggjum sínum á framfæri við yfirvöld í Tyrklandi. Þrátt fyrir að Bandaríkin skilji áhyggjur Tyrkja vegna PKK skaði árásir sem þessar baráttuna gegn Íslamska ríkinu. Írakskir Kúrdar hafa einnig lýst yfir andstöðu við veru PKK í Sinjarhéraði.

Einn af forsvarsmönnum Syrian Democratic Forces, sem eru regnhlífarsamtök sýrlenskra Kúrda og bandamanna þeirra í Sýrlandi, kallar eftir því að Bandaríkin hjálpi þeim að koma upp loftvörnum til að verjast árásum Tyrkja. SDF stjórna stórum hluta Sýrlands sem liggur að landamærum Tyrklands.

Tyrkir gerðu í raun innrás í Sýrland í ágúst í fyrra, með uppreisnarhópum sem þeir styðja, til þess að koma í veg fyrir að sýrlenskir Kúrdar næðu öllum landamærunum á sitt vald. Þeir hafa jafnvel hótað því að beita hernaði gegn Kúrdum og sendu Bandaríkin hermenn til borgarinnar Manbij til þess að koma í veg fyrir slíka árás.

Sjá einnig: Bandaríkin fjölga hermönnum í Sýrlandi

Hernaðaryfirvöld í Tyrklandi segja 40 „hryðjuverkamenn“ hafa fallið í Sýrlandi og 30 í Írak. Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, segir PKK ógna öryggi ríkisins og að barist yrði gegn þeim þrátt fyrir að þeir haldi til í „landi A eða landi B“.


Tengdar fréttir

„Þeir óttast raddir okkar“

Fjöldi kvenna hafa gengið til liðs við YPG-sveitir Kúrda í Sýrlandi til að hefna fyrir framferði ISIS gagnvart konum.

Kúrdar sækjast eftir loftvarnarvopnum

Yfirvöld í Rússlandi segja ákvörðun Bandaríkjanna að draga úr takmörkunum á vopnaveitingum til ýmissa hópa í Sýrlandi vera beina ógn gegn flugmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×