Innlent

Tveir þriðju vilja halda ESB-umsókn Íslands til streitu

Tæplega tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja að Ísland ljúki aðildarviðræðum við Evrópusambandið svo hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður viðræðnanna samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Alls sögðust 63,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni vilja halda viðræðum áfram en 36,6 prósent vildu draga aðildarumsóknina til baka.

Örlítið virðist hafa dregið úr stuðningi við að ljúka viðræðum frá því Fréttablaðið kannaði afstöðu til málsins síðast, í janúar síðastliðnum. Þá vildu 65,4 prósent ljúka viðræðum en 34,6 prósent draga umsóknina til baka.

Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna klofna í tvo svipað stóra hópa í afstöðu sinni til spurningarinnar. Um 48,9 prósent sjálfstæðismanna vildu halda umsóknarferlinu áfram og 52,8 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar vildu nær allir ljúka viðræðunum. Aðeins 4,3 vildu draga umsóknina til baka. Öðru gildir um þá sem segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn yrði gengið til kosninga nú. Um 67,4 prósent þeirra sögðust vilja draga umsóknina til baka.

Karlar vilja frekar ljúka viðræðunum en konur. Um 67,5 prósent karla voru þeirrar skoðunar en 59,2 prósent kvenna.

Meiri stuðningur er við að ljúka viðræðunum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Um 68,5 prósent íbúa höfuðborgarinnar vilja klára viðræðurnar, en 52,3 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 8. september. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvort myndir þú heldur kjósa: 1) Að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu, eða 2) Að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn? Alls tóku 87,5 prósent afstöðu.- bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×