Viðskipti innlent

Tveir bandarískir fjárfestingasjóðir komnir með 3,5 prósent í VÍS

Hörður Ægisson skrifar
Hlutur sjóðanna í VÍS er metinn á um 875 milljónir.
Hlutur sjóðanna í VÍS er metinn á um 875 milljónir. VÍSIR/Anton
Tveir bandarískir fjárfestingarsjóðir á vegum eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management komust í síðustu viku í fyrsta sinn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS.

Sjóðirnir Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage eiga þannig í dag samanlagt 3,44 prósenta hlut í VÍS sem þýðir að þeir eru saman tíundu stærstu hluthafar félagsins. Hlutur sjóðanna er metinn á um 875 milljónir króna miðað við núverandi gengi bréfa VÍS.

Kaup sjóðanna á bréfum í VÍS komu í kjölfar þess að stjórnvöld tilkynntu um afnám fjármagnshafta sunnudaginn 12. mars síðastliðinn. Þá stóðu sjóðirnir einnig á sama tíma fyrir kaupum á enn stærri hlut í Eimskipum, en þeir eiga núna samanlagt rúmlega 3,6 prósenta hlut í félaginu, auk þess að fjárfesta í öllum þremur fasteignafélögunum – Reitum, Regin og Eik – sem eru skráð á markað. Sjóðirnir eru í dag á lista yfir stærstu hluthafa í öllum fasteignafélögunum og markaðsvirði þess hlutar nemur samtals um 4 milljörðum.

Fjárfestingarsjóðirnir hafa frá 2015 verið langsamlega umsvifamestir erlendra aðila á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sjóðirnir eru á meðal tuttugu stærstu hluthafa í tíu félögum í Kauphöllinni og nemur samanlagt markaðsvirði þess eignarhlutar yfir tíu milljörðum. Þá hafa sjóðirnir jafnframt staðið að kaupum í öðrum skráðum fyrirtækjum og þegar tekið er tillit til alls þessa má varlega áætla að sjóðir Eaton Vance eigi um tvö prósent af heildarhlutafé á hlutabréfamarkaði. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×