Innlent

Tryllitæki í Fífunni: "Við erum að sýna íslenska hönnun"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Það vantar svo sannarlega ekki tryllitækin í Fífuna, enda er þetta ein stærsta bílasýning sem haldin hefur verið á Íslandi. Á sýningunni eru um 150 bílar til sýnis auk þess sem fjallað er um sögu Ferðafélagsins í máli og myndum. „Það sem er merkilegt er að við erum að sýna íslenska hönnun. Þetta eru bílar sem eru smíðaðir hér heima og sjást hvergi nema hér á Íslandi,“ segir Sveinbjörn Halldórsson, sýningarstjóri og formaður Ferðaklúbbsins 4x4.

Klúbburinn var stofnaður árið 1983. „Hann hefur verið hagsmunafélag fyrir þá sem hafa áhuga á fjórhjóladrifsbílum og ferðalögum um Ísland.“

Sveinbjörn segir jeppabreytingar orðnar að mikilvægri útflutningsvöru. „Venjan er sú að þetta byrjar í bílskúrunum. Þar finna menn hlutina upp og prófa og þróa þetta og svo er þetta orðið að útflutningsvöru núna. Það hafa til dæmis farið bílar yfir Suðurskautið sem eru íslensk smíði og íslensk hönnun.“

Sýningin er opin til klukkan átta í kvöld og þá verða veitt verðlaun fyrir fallegasta bílinn og fleira. „Síðan munum við ljúka sýningunni og þá verða bílarnir settir í gang og keyrðir hérna út úr höllinni og það verður að sjálfsögðu gaman að sjá það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×