Erlent

Trump segir Merkel hafa gert „hörmuleg mistök“

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á föstudaginn.
Donald Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á föstudaginn. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt Angelu Merkel Þýskalandskanslara fyrir að hafa opnað landamæri Þýskalands og hleypt svo mörgum flóttamönnum til landsins. Segir hann Merkel hafa gert „hörmuleg mistök“.

Um 890 þúsund flóttamenn komu til Þýskalands á árinu 2015 og voru margir þeirra að flýja óöldina í Sýrlandi. Þrátt fyrir að hafa verið undir miklum þrýstingi ákvað Merkel að opna landamærin tímabundið fyrir flóttafólki.

Trump segist í viðtali við breska blaðið Times og þýska blaðið Bild þó bera mikla virðingu fyrir Merkel.

Hann segist jafnframt trúa því að sá mikli fjöldi flóttafólks sem komið hafi til Evrópu muni leiða til upplausnar Evrópusambandsins. Þróunin hafi orðið til þess að Bretar hafi ákveðið að segja skilið við sambandið.

Trump segir að Brexit vera mjög jákvætt og spáir því að fleiri ríki muni fylgja fordæmi þeirra og kjósa að yfirgefa ESB. „Ég hugsa að fólk vilji halda einkennum sínum; svo ef þú spyrð mig; ég tel að fleiri munu yfirgefa ESB.“

Hann segir einnig að ekki muni taka langan tíma fyrir Bandaríkin og Bretland að ná saman um viðskiptasamning ríkjanna.

Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×