Viðskipti innlent

TripCreator hlýtur WebAwards

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Starfsmenn héldu upp á áfangann.
Starfsmenn héldu upp á áfangann.
Íslenska vefsíðan TripCreator.com hefur hlotið WebAward verðalaunin sem besti ferðavefur heims árið 2015. Síðan hefur verið í þróun frá því árið 2013 en fór í loftið í vor.

WebAwards eru veitt árlega vefsíðum sem þykja framúrskarandi í sínum flokki. TripCreator var tilnefnd í flokki sem tileinkaður er ferðasíðum. Að baki verðlaununum standa samtökin Web Marketing Association en þau hafa verið veitt frá árinu 1997.

Meðal sigurvegara í öðrum flokkum má nefna fyrirtæki á borð við Virgin Atlantic, Mercedez Benz, AT&T, Samsung og Adidas. Vefsíðurnar voru dæmdar fyrir sjö mismunandi þætti á borð hönnun, nýnæmi, gagnvirkni og hve auðveldur hann er í notkun. Hlaut TripCreator 68,5 stig af sjötíu mögulegum.

„Þetta er gríðarlega mikill heiður fyrir ungt íslenskt nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Hilmar Halldórsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, “við stefnum á að færa út kvíarnar og opna fyrir nýja áfangastaði snemma á næsta ári, þess vegna skiptir þessi viðurkenning okkur miklu máli.“ Starfsmenn fyrirtækisins eru nú ellefu og er það með starfsstöðvar í Kópavogi og Vilnius.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×