Viðskipti innlent

Tólf manns sagt upp við sameiningu MP banka og Straums

Bjarki Ármannsson skrifar
MP banki hf. og Straumur fjárfestingarbanki hf. sameinuðust formlega í dag undir einu nafni og kennitölu MP banka.
MP banki hf. og Straumur fjárfestingarbanki hf. sameinuðust formlega í dag undir einu nafni og kennitölu MP banka. Vísir
MP banki hf. og Straumur fjárfestingarbanki hf. sameinuðust formlega í dag undir einu nafni og kennitölu MP banka. Tólf starfsmönnum var sagt upp við sameininguna.

„Sameiningunni og nýju skipulagi fylgja óhjákvæmilega hagræðingaraðgerðir,“ segir í fréttatilkynningu um uppsagnirnar. „Það er leitt að sjá á eftir góðum félögum. Bankinn þakkar þeim starfsmönnum sem nú láta af störfum fyrir vel unnin störf og framlag til uppbyggingar MP banka og Straums fjárfestingabanka og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.“

Sameinaður banki mun starfa undir heitinu MP Straumur þar til annað nafn hefur verið kynnt. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verður áfram stjórnarformaður sameinaðs banka og Sigurður Atli Jónsson áfram forstjóri.

„Þetta eru stór tímamót og ástæða til að fagna því hversu vel þessi sameining hefur gengið fyrir sig,“ segir Sigurður í tilkynningunni. „Vinnu við sameininguna er þó alls ekki lokið.“

Öll réttindi og skyldur Straums flytjast yfir á kennitölu MP banka með engum breytingum fyrir viðskiptavini bankans, að því er segir í tilkynningunni. Fyrst um sinn verður starfsemi sameinaðs banka á tveimur stöðum, í Borgartúni 25 og Ármúla 13a, en stefnt er að því að sameina alla starfsemi í Borgartúni fyrir haustið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×