Golf

Tiger Woods í forystu þegar að Wyndham meistaramótið er hálfnað

Sólin skein á Tiger í dag.
Sólin skein á Tiger í dag. Getty

Tiger Woods leiðir ásamt hinum lítt þekkta Tom Hoge eftir tvo hringi á Wyndham meistaramótinu sem nú er hálfnað en þeir hafa leikið hringina tvo á Greensboro vellinum á 11 höggum undir pari.

Það eru tvö ár síðan að Tiger hefur farið jafn vel af stað í móti á PGA-mótaröðinni en hann lék annan hring í kvöld á 65 höggum eða fimm undir pari.

Þessi fyrrum besti kylfingur heims hefur átt mjög slæmu gengi að fagna á árinu og hrunið niður heimslistan í golfi en að undanförnu hefur hann verið í töluverðum sveiflubreytingum í samstarfi við þjálfara sinn, Chris Como.

Tiger sagði við fréttamenn eftir hringinn að góð spilamennska sín í mótinu hingað væri vegna þess að þessar stífu æfingar væru að skila sér en hann þarf nauðsynlega á sigri að halda um helgina til þess að komast inn í úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar.

Í öðru sæti, einu á eftir Tiger og Hoge eru reynsluboltarnir Chad Campbell og Davis Love á tíu undir pari en nokkrir kylfingar koma þar á eftir á níu höggum undir.

Útsending frá þriðja hring á morgun hefst klukkan 17:00 á Golfstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×