Viðskipti innlent

Þúsundir lánasamninga í óvissu vegna álits EFTA-dómstólsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björn Þorri Viktorsson telur að álitið eigi við um alla neytendur.
Björn Þorri Viktorsson telur að álitið eigi við um alla neytendur. Vísir/GVA
Á þessari stundu er algjörlega óvíst hvaða áhrif ráðgefandi álit EFTA mun hafa á þúsundir lánasamninga sem gerðir hafa verið eftir að lög um neytendalán voru sett árið 1994.

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í gær að það samrýmist ekki tilskipun Evrópusambandsins að miða skilmála í verðtryggðum lánum við 0 prósent verðbólgu ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0 prósent. Sævar Jón Gunnarsson sjómaður höfðaði mál gegn Landsbankanum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna neytendaláns sem hann tók í nóvember 2008 að fjárhæð 630 þúsund krónur. Lánið var til fimm ára.

Í áliti EFTA-dómstólsins kemur líka fram að það sé íslenskra dómstóla að meta hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að beita af því tilefni. Þá mun það koma í hlut íslenskra dómstóla að meta hvort þessi niðurstaða dómsins eigi einnig við um fasteignalán.

EFTA-dómstóllinn segir að við mat á áhrifum dómsins „verði landsdómstóllinn að hafa hliðsjón af því hvort viðkomandi neytandi geti talist almennur neytandi, sem er ágætlega upplýstur, athugull og forsjáll,“ segir enn fremur í álitinu.

Þessi setningu má túlka á þann veg að staða lántakenda geti verið misjöfn og íslenskir dómstólar verði að taka tillit til þess. Íslenskur lántakandi, sem hugsanlega hafi tekið verðtryggð lán áður, eigi að vera upplýstur um eðli verðtryggingar. Íslenskir dómstólar þurfi ekki að taka sama tillit til hans og ungs lántakanda sem er að taka sitt fyrsta lán, eða innflytjanda sem tekur lán í fyrsta skipti og sannarlega þekkir ekki eðli verðtryggingar.

Björn Þorri Viktorsson, lögmaður Sævars Jóns Gunnarssonar, er ekki sammála þessari túlkun. Hann telur að álitið eigi við um alla neytendur. „Já, engin spurning. Ekki ætla menn að fara að hártoga það eitthvað sérstaklega,“ segir Björn Þorri. Hann segir þó ljóst að málið snúist um það hvað viðkomandi neytandi vissi og hvað hann vissi ekki þegar hann tók lánið.

Björn Þorri bendir á að umbjóðandi sinn sé sjómaður með enga sérstaka menntun eða reynslu á sviði fjármála. „Ég held að það sé alveg fráleitt annað en að telja að hann sé bara réttur og klár neytandi eins og 99 prósent alls almennings,“ segir Björn Þorri.

Eftir að EFTA-dómstóllinn opinberaði álit sitt í gær sendi Landsbankinn frá sér yfirlýsingu þar sem segir að eitt af þeim álitaefnum sem muni reyna á fyrir íslenskum dómstólum sé hvort tilskipun Evrópusambandsins um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi neytendalán hafi verið innleidd rétt í íslensk lög.

Bankinn telur að lögin frá 1994 um neytendalán séu mjög afdráttarlaus um að ekki beri að taka tillit til breytinga á verðlagi við útreikning á áætluðum kostnaði lántaka af lántökunni. Hafi tilskipunin verið rangt innleidd kann sú spurning að vakna hvort íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart aðilum að lánasamningum, lánveitendum eða neytendum.

Samkvæmt nýjum lögum er ekki heimilt að miða við núll prósent verðbólgu þegar heildarkostnaður láns og árleg hlutfallstala kostnaðar er reiknuð. Nú skal miða við ársverðbólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×