Innlent

Þú gætir endað uppi allsber

„Það sem Bjarni Ben er að reyna að selja mér hérna er að mér finnst eins og að maður fari út í búð og sér alveg ógeðslega ljótar gallabuxur fyrir 10 þúsund kall, en þær fást núna fyrir 3 þúsund kall, en ég hef engan áhuga á að vera í þeim," sagði Sturla Jónsson, vörubílstjóri, á fundinum í Valhöll í dag.

Sturla lét þessi orð falla þegar að fundargestir gátu spurt Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, spurninga eftir ræðu þess síðarnefnda í dag.

„Mér finnst hann tala eins og hann sé á launaskrá hjá Hollendingum og Bretum," sagði Sturla áður en Friðrik Sophusson, fundarstjóri, greip frammí og sagði að nú þyrfti hann að fara koma af spurningunni.

„Hún er að koma, það eru 15 sekúndur sem eru komnar," svarði Sturla. „Þú ert búinn með 17," svaraði Friðrik honum þá. „Já, truflaðu mig þá ekki meira," sagði Sturla.

„Spurningin er: Í fjórða kafla stjórnarskrárinnar, þá ætla ég að athuga, þar sem þú ert á launum hjá íslenska lýðveldinu, hvort þú kunnir ekki 40. og 41. greinina, þetta eru fimm línur. Ég ætla að biðja þig um að fara með þetta fyrir okkur hérna."

Bjarni sagði þá: „Sturla, ég er ekki með stjórnarskránna í kollinum."

Og Sturla greip frammí: „Þú átt að kunna hana, þú ert á þingi."

Bjarni sagði þá: „Þetta er ekki málefnalegt. Ég ætla að segja eitt við þig Sturla, staðan er sú, að takir þú ekki ódýru gallabuxurnar þá gætir þú á endanum staðið uppi allsber," sagði Bjarni og fundargestir klöppuðu.

Hægt er að sjá spurningu Sturlu og svar Bjarna Ben í meðfylgjandi myndskeiði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×