Viðskipti innlent

Þriggja milljarða fjármögnun Icelandair Group

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Icelandair tekur þriggja milljarða lán.
Icelandair tekur þriggja milljarða lán.
Icelandair Group hf. hefur lokið sölu á nýjum flokki óveðtryggðra skuldabréfa fyrir um það bil þrjá milljarða króna, eða 23,66 milljónir Bandaríkjadala. Þau voru seld innlendum fagfjárfestum þann 19. desember síðastliðinn. Heildarheimild útgáfu í þessum skuldabréfaflokki er 75 milljónir Bandaríkjadala.

Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group segir að með útgáfu skuldabréfanna sé verið að horfa til langs tíma og að undirbúa jarðveginn fyrir stærstu fjárfestingu félagsins. „Sem eru vélar sem eiga reyndar ekki að koma inn fyrr en 2018. Við erum að auka fjölbreytni fjármögnunarmöguleika okkar með þessu,“ segir hann.

Skuldabréfaflokkurinn, sem ber auðkennið ICEAIR 15 1, er til fimm ára, útgefinn í Bandaríkjadal og ber fasta 4,25% vexti sem greiðast hálfsárslega.

Skuldabréfaflokkurinn verður gefinn út rafrænt og verður útgáfulýsing birt á heimasíðu Verðbréfaskráningar Íslands í fyrsta lagi þann 15. janúar. Skuldabréfin verða gefin út með heimild Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningu frá Icelandair Group segir að óskað verði eftir að skuldabréfaflokkurinn verði tekinn til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi og mun Íslandsbanki annast skráninguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×