Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir manndráp á Ásláki

MYND/GVA

Hæstiréttur dæmdi í dag Loft Jens Magnússon í þriggja ára fangelsi fyrir að vera valdur að dauða Ragnars Björnssonar á veitingastaðnum Áslálki í Mosfellsbæ í desember 2004. Með þessu þyngdi Hæstiréttur dóm héraðsdóms sem dæmt hafði Loft Jens í tveggja ára fangelsi. Enn fremur var hann dæmdur til að greiða ekkju og börnum Ragnar um tólf milljónir króna í miskabætur.

Atvikið var með þeim hætti að Loftur Jens sló Ragnar hnefahögg í hálsinn með þeim afleiðingum að slagæð við hálshrygg rofnaði. Við þetta varð mikil blæðing inn í höfuðkúpu sem leiddi til þess að Ragnar lést af völdum blæðingar á milli heila og innri heilahimna.

Í dómi Hæstaréttar segir að ekki verði ekki litið fram hjá því hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af broti Lofts og að árásin hafi verið algjörlega tilefnislaus. Á hinn bóginn var ekki talið að Lofti hefði verið ljóst að afleiðingar hnefahöggsins gætu orðið svo alvarlegar sem raun bar vitni.

Þá segir enn fremur í dómnum að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að Loftur hafi eftir brotið leitað sér aðstoðar vegna óreglu sinnar eða reynt á einhvern hátt að bæta fyrir brotið auk þess sem málið hafði tafist af hans völdum. Þótti ekki sýnt að Loftur ætti sér nokkrar málsbætur og þótti dómnum því ekki hjá því komist að þyngja refsingu hans.

Auk dómsins fyrir manndrápið var Loftur sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×