Innlent

Þor­steinn Víg­lunds­son: „Þjóðin var að hafna hug­myndum um vinstri­stjórn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Það blasir náttúrulega við að þjóðin var að hafna hugmyndum um vinstristjórn og það hafði töluverð áhrif á kosningarnar. Við fundum það á síðustu vikunni að það færðist töluverður ótti yfir kjósendur varðandi hreina nýja vinstristjórn.  Ég held að það séu nú megin skilaboðin sem megi lesa út úr þessum kosningum,“ sagði Þorsteinn Víglundsson oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í samtali við fréttastofu í kvöld en hann er öruggur inn á þing eins og tölurnar eru núna.

Þá sagði Þorsteinn að það væri ánægjulegt að sjá nýtt framboð eins og Viðreisn með vel yfir 10 prósent fylgi í sínum fyrstu kosningum. Hann segir flokkinn ekki geta verið annað en ánægðan með stuðninginn.

Aðspurður hvort að flokkurinn hafi verið of fljótur á sér þegar hann útilokaði að vera þriðja hjólið undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks neitaði Þorsteinn því.

„Við viljum fá breiðari skírskotun í nýrri ríkisstjórn ef við komum að henni og það stendur alveg. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt ef það eigi að ráðast hér í umtalsverðar breytingar, freista þess að ná sátt í sjávarútvegsmálum,  freista þess að ná sátt í landbúnaðarmálum, finna lausn í Evrópumálum og fara í þau mikilvægu mál sem blasa hér við varðandi efnahagslegan stöðugleika þá þarf held ég til þess mjög breiða skírskotun í nýrri ríkisstjórn. En þetta skýrist á næstu dögum,“ sagði Þorsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×