Erlent

Þingið sendi lögin áfram til Obama

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mitch McConnell leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings gengur til þings í gær, áður en gengið var til atkvæða.
Mitch McConnell leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings gengur til þings í gær, áður en gengið var til atkvæða. Fréttablaðið/EPA
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær með 62 atkvæðum gegn 27 Frelsislögin svonefndu, sem veita leyniþjónustustofnunum heimildir til þess að stunda margvíslegt eftirlit með borgurum landsins.

Eftirlitinu verða þó settar strangari skorður en í fyrri lögum, Föðurlandslögunum svonefndu, sem runnu út um mánaðamótin. Í gær samþykkti deildin jafnframt að framlengja að hluta Föðurlandslögin, sem upphaflega voru sett í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 til að tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ron Wyden segir Frelsislögin mikilvægasta sigur sem unnist hafi í baráttunni fyrir borgararéttindum í Bandaríkjunum í meira en áratug.

Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hefur ekki lengur þær víðtæku heimildir til eftirlits með símanotkun og netsamskiptum fólks, sem Föðurlandslögin veittu.

Repúblikanar í öldungadeild töldu heimildirnar í nýju lögunum hins vegar ekki nógu víðtækar og reyndu að gera á þeim breytingar, en þær breytingartillögur voru allar felldar í gær í atkvæðagreiðslu í deildinni.

Lögin hafa þegar verið samþykkt í fulltrúadeild þingsins og Barack Obama forseti hefur lagt blessun sína yfir þau, þannig að þau taka væntanlega gildi um leið og hann hefur undirritað þau.

Gildistími fyrri laga rann út um mánaðamótin og þar með hætti Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin, NSA, hinni stórtæku upplýsingasöfnun, sem Edward Snowden ljóstraði upp um fyrir nærri tveimur árum.

Sjá einnig: Hver er munurinn á Edward Snowden og Julian Assange?

Aðrar leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna hafa heldur ekki lengur heimild til að stunda margvíslegt annað eftirlit með athöfnum fólks, til dæmis með viðskiptum sem grunur leikur á að geti tengst hryðjuverkastarfsemi.

Upphaflega var það talið vera einfalt afgreiðsluatriði að framlengja lagaheimildirnar, en uppljóstranir Edwards Snowden settu strik í þann reikning og andstaðan við njósnirnar hefur verið töluverð, bæði meðal almennings og meðal bandarískra þingmanna.

Ef breytingartillögur McConnels hefðu verið samþykktar í gær hefði frumvarpið aftur komið til kasta fulltrúadeildarinnar, sem að öllum líkindum hefði ekki samþykkt útgáfu öldungadeildarinnar óbreytta, og sent enn aðra útgáfu aftur til öldungadeildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×