Erlent

Þeir átta ríkustu eiga jafnmikið og fátækari helmingur mannkyns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bill Gates er einn af ríkustu mönnum heims.
Bill Gates er einn af ríkustu mönnum heims. vísir/epa
Átta ríkustu einstaklingar jarðar eiga nú jafn mikinn auð og fátækari helmingur alls mannkyns. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá bresku hjálparsamtökunum Oxfam.

Í skýrslunni er vísað í gögn sem eru sögð sýna að bilið á milli ríkra og fátækra sé enn meira en talið var. Skýrsla Oxfam kemur út um leið og hinn árlegi World Economic Forum-fundur fer fram í Davos í Sviss en þar hittast auðmenn og forstjórar stærstu fyrirtækja heims ásamt stjórnmálamönnum og ræða málin.

Oxfam segir að fátækari helmingur mannskyns eigi jafnmikið og átta ríkustu menn í heimi en auður þeirra telur 426 billjónir dala. Þessi hópur manna telur þá Bill Gates, stofnanda Microsoft, Amancio Ortega, stofnanda verslunarkeðjunnar Zara, fjárfestinn Warren Buffet, Carlos Slim Helú, eiganda eins stærsta fjarskiptafyrirtækis Mexíkó, Jeff Bezos, stofnanda Amazo, Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, Larry Ellison, forstjóra bandaríska tæknifyrirtækisins Oracle og Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra í New York og stofnanda Bloomberg-fréttaveitunnar.

Hjálparsamtökin kalla í skýrslunni eftir nýju efnahagsmódeli til að snúa við þeirri þróun að ójöfnuður aukist ár frá ári en að mati Oxfam má leita skýringa á Brexit og sigri Donald Trump í auknum ójöfnuði. Ýmsir hafa þó gagnrýnt áherslur Oxfam og segja að hjálparsamtökin ættu frekar að beina athyglinni að því að þrátt fyrir að bilið hafi aukist þá vegni hinum fátæku mun betur en áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×