Viðskipti innlent

Telur Ísland ekki svo ólíkt Nýja-Sjálandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Juliet er nýsjálensk og hefur áður kennt áfanga í Afríku, Ástralíu og Suðaustur-Asíu.
Juliet er nýsjálensk og hefur áður kennt áfanga í Afríku, Ástralíu og Suðaustur-Asíu. Vísir/GVA
„Ísland er ekki svo ólíkt Nýja-Sjálandi, bara aðeins kaldara,“ þetta segir Juliet Newson. Hún er nýr framkvæmdastjóri Íslenska orkuháskólans við Háskólann í Reykjavík. Hún er nýflutt til landsins en hún hefur undanfarin árin unnið í jarðvarmaiðnaði á Nýja-Sjálandi og unnið hjá Alþjóðlega jarðvarmasambandinu (e. International Geothermal Association)

„Ég hef verið að vinna hér síðustu þrjár vikur en kom til Íslands þann fimmta nóvember. Aðlögunin hefur hingað til ekki verið erfið. Starfið hefur verið mjög áhugvert fram að þessu og ég er virkilega að njóta þess. Ég er enn þá að setja mig inn í starfið þar sem það er mikið sem maður þarf að læra,“ segir Juliet.

Ísland leiðandi í endurvinnanlegri orku

„Starfið snýr mikið að leiðandi stöðu Íslands þegar kemur að endurvinnanlegri orku. Það snýst um að gera nemendum okkar kleift að vera hluti af umskiptunum yfir í endurnýjanlega orku. Þeir ættu að geta leitt þessa yfirfærslu út um allan heim þar sem við erum með marga alþjóðlega nemendur.“

Að mati Juliet eru mikil tækifæri í iðnaðinum. „Ég held að það sé mikilvægt að allur heimurinn skipti yfir í endurnýjanlega orku. Við verðum að gera það og við erum að undirbúa nemendur okkar undir að vera hluti af því.“

Hefur kennt víða

Starfið hjá Orkuháskólanum er fyrsta langtímastarf Juliet utan Nýja-Sjálands, hún hefur þó reynslu af alþjóðavettvangi og hefur kennt áfanga tengda jarðvarma í Suðaustur-Asíu, Afríku og Ástralíu.

„Háskólar eru almennt áhugasamir um þetta svið en ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa sterkan innlendan iðnað, og enn þá mikilvægara er að hafa góðan stuðning við rannsóknir og að ríkisstjórnir sjái hag sinn í að rannsaka þennan iðnað,“ segir Juliet.

Sem fyrr segir flutti hún nýverið til landsins. Maður hennar er Harry og eiga þau þrjú uppkomin börn. Yngsti sonurinn flutti með henni til Íslands ásamt fjölskyldukettinum. Margir myndu telja að þetta væri löng flutningaleið fyrir kött og er Juliet sammála því. „Restin af fjölskyldunni kemur innan árs, en eldri börnin mín eru uppkomin þannig að þau koma bara í heimsókn.“

Mikil skíðakona

Utan vinnunnar er Juliet og öll fjölskyldan raunar mikið skíðafólk. „Ég hef líka mjög gaman af siglingum af því að ég er nýsjálensk, og mér finnst gaman að róa á kajak. Ég var dugleg að róa á kajak heima.“ Hún segist spennt fyrir að iðka þessar íþróttir á Íslandi sem og að halda áfram að synda reglulega.

„Hingað til er vinnan frábær og ég hef verið að kynnast Íslendingum, ég tók nýlega þátt í GEORG Geothermal vinnustofunni og hitti nýverið Konur í orkumálum í kokteil. Mér er að byrja að líða eins og heima hjá mér. Þetta hefur í það minnsta verið góð reynsla fram að þessu,“ segir Juliet. „Ég er kannski ekki komin með íslenskuna á hreint, en ég ætla að byrja í íslenskutímum í janúar þannig að við sjáum til hvernig það gengur, ég mun gera mitt besta.“


Tengdar fréttir

Snýr aftur til Boston á Bacon styrk

"Orkumál eru stærsta umhverfismál okkar tíma,“ segir Halla Hrund Logadóttir sem heldur til móts við helstu sérfræðinga Harvard á fullum skólastyrk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×