Golf

Tekst Ólafíu að endurskrifa íslenska golfsögu á morgun?

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/LET/Tristan Jones
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, er aðeins átján holum frá því að endurskrifa íslensku sögubækurnar í golfi en hún á möguleika á því að verða fyrsti íslenski kylfingurinn sem kemst á PGA-mótaröðina.

Ólafía er fyrir lokahringinn með níu högga forskot á fjóra kylfinga sem deila 19. sæti fyrir lokahringinn en það hefur sýnt sig á þessum mótum að hlutirnir eru fljótir að breytast.

Þarf ekki að fara lengra en að skoða frammistöðuna sem Ólafía sýndi á öðrum degi þegar hún lyfti sér upp um 62. sæti og blandaði sér í toppbaráttuna.

LPGA-mótaröðin er stærsta mótaröð heimsins í kvennagolfinu en Ólafía Þórunn sem lék háskólagolf með Wake Forest háskólanum í Norður-Karólínu hefur leikið á LET-mótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu og næst sterkustu mótaröð heims, á þessu ári.

Hún hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á Symetra mótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröðin í Bandaríkjunum en tuttugu efstu kylfingarnir á úrtökumótinu fá einnig takmarkaðan þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári.

Um er að ræða gríðarlega stórt tækifæri fyrir Ólafíu en verðlaunaféið í LPGA-mótaröðinni er umtalsvert hærra en þekkist á LET-mótaröðinni ásamt því að eiga möguleika á þátttöku í stærstu golfmótum heimsins.

Til dæmis verður verðlaunaféið á LPGA-mótunum á næsta ári aldrei undir milljón dollara á LPGA-mótaröðinni en á yfirstandandi tímabili í LET-mótaröðinni voru aðeins tvö mót sem verðlaunaféið var meira en milljón dollarar.

Ólafía hefur leik klukkan 14.00 á morgun í lokaráshópnum en efstu tuttugu kylfingarnir tryggja sér fullan þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári ásamt peningaverðlaunum.

Ólafía Þórunn varð aðeins annar kylfingurinn sem tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna (LET) á síðasta ári á eftir Ólöfu Maríu Jónsdóttur, kylfing úr GK.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×