Erlent

Taka við tvöfalt fleiri á flótta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tugir ríkja heita að taka við 360 þúsund flóttamönnum á þessu ári, tvöfalt fleirum en tekið var við í fyrra. Jafnframt verði fé til málefna flóttafólks aukið um jafnvirði ríflega 500 milljarða króna.

Barack Obama Bandaríkjaforseti upplýsti þetta í New York í gær, þar sem leiðtogar heims hafa rætt um málefni flóttamanna í tengslum við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir þetta þó aðeins leysa lítið brot af vandanum, því nú þurfi um 1,2 milljónir flóttamanna nauðsynlega á hæli að halda.

Niðurstaða af sérstökum leiðtogafundi um málefni flóttamanna á mánudaginn olli nokkrum vonbrigðum, því þrátt fyrir háleit markmið í yfirlýsingu fundarins er hún ekki bindandi.

Þar var meðal annars samþykkt að vernda mannréttindi allra flóttamanna og farandfólks. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×