Innlent

Tæp þrjátíu ár frá síðustu minnihlutastjórn

Tæp 30 ár eru síðan minnihlutastjórn hélt síðast um stjórnartauma íslenska ríkisins. Afar sjaldgæft er að menn komi sér saman um minnihlutastjórn á Íslandi, eins og þá sem nú er í burðarliðnum.

Algengt er að minnihlutastjórnir séu settar saman á Norðurlöndunum, en það er sárasjaldgæft á Íslandi. Aðeins þrisvar á lýðveldistímanum hafa setið hér minnihlutastjórnir. Síðasta minnihlutastjórn tók við undir forystu Benedikts Gröndals árið í október 1979.

Hún var eingöngu skipuð Alþýðuflokki og sat í tæpa fjóra mánuði eða fram í febrúar 1980. Sú stjórn tók við eftir að ríkisstjórn Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks hafði sprungið eftir rúmt ár við stjórnvölinn. Tuttugu árum, 1958-59, áður leiddi Emil Jónsson minnihlutastjórn Alþýðuflokks sem var varin af Sjálfstæðisflokki. Sú stjórn sat í ellefu mánuði.

Og tæpum tíu árum áður, 1949-50, leiddi Ólafur Thors minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks í þrjá mánuði. Ef Vinstri grænir og Samfylking ná að mynda minnihlutastjórn í dag eða næstu daga - verður það því fjórða minnihlutastjórn íslenskrar stjórnmálasögu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×