Innlent

Tæp milljón hjá þremur ráðuneytum

vigdís hauksdóttir
vigdís hauksdóttir
Fréttablaðið leitaði fanga hjá öllum ráðuneytum til að fá dæmi um þann kostnað sem einstök fyrirspurn getur haft í för með sér og þá vinnu sem liggur að baki svarinu. Fyrir valinu varð fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem sendi öllum ráðuneytum eftirfarandi fyrirspurn:

1. Hvað fóru starfsmenn ráðuneyta og embættismenn í undirstofnunum þeirra oft til útlanda á árunum 2007-2010? Til hvaða lands var farið og í hvaða erindum?

2. Hver er heildarkostnaður við ferðirnar með dagpeningum, sundurliðað eftir árum, ráðuneyti og undirstofnunum?

Tölur bárust einungis frá þremur ráðuneytum: forsætis-, fjármála- og efnahags- og viðskipta. Samanlagður kostnaður þessara þriggja ráðuneyta við vinnslu svarsins nam 700 til 900 þúsund krónum og í hana fóru 197 til 223 vinnustundir. Einnig bárust svör frá umhverfisráðuneytinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Í því fyrstnefnda fór 2 til 3 daga vinna eins starfsmanns í svarið, en kostnaður hefur ekki verið tekinn saman. Í svari efnahags- og viðskiptaráðuneytisins kemur fram að tímanum hafi ekki verið haldið til haga. Hann mælist þó í dögum en ekki klukkustundum. Í svari hins síðasttalda segir að verkið hafi verið unnið af starfsmönnum ráðuneytisins samhliða öðrum störfum og kostnaður og umfang ekki verið tekið saman.

Forsætisráðuneytið: Kostnaður 150 til 200 þúsund krónur. Tími 42 til 48 vinnustundir.

Fjármálaráðuneytið: Kostnaður 270 til 350 þúsund krónur. Tími um 45 vinnustundir.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið: Kostnaður 280 til 350 þúsund krónur. Tími 80 til 100 vinnustundir.

Ljóst er að ofansögðu að kostnaður við þessa einu fyrirspurn hefur hlaupið á milljónum, sé gert ráð fyrir því að hann sé svipaður hjá öllum ráðuneytum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×