Erlent

Svaraði kalli ISIS í Ohio

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrir árásina hafði Artan kvartað á Facebook yfir því hvernig komið er fram við múslima í Bandaríkjunum.
Fyrir árásina hafði Artan kvartað á Facebook yfir því hvernig komið er fram við múslima í Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Íslamska ríkið segir Abdul Razak Ali Artan, 18 ára námsmann sem keyrði á og stakk ellefu manns við Ohio State háskólann í gær, vera „hermann ISIS“. Amaq, sem er nokkurs konar fréttaveita Íslamska ríkisins, segir Artan hafa svarað kalli samtakanna eftir árásum í vestrænum ríkjum. Fyrir árásina hafði Artan kvartað á Facebook yfir því hvernig komið er fram við múslima í Bandaríkjunum.

„Ef þið viljið að múslimar hætti að fremja árásir í nafni ISIS verðið þið að semja frið,“ hafði hann skrifað samkvæmt AP fréttaveitunni. Þar vísaði hann til þess að Bandaríkin þyrftu að semja frið við ISIS.

Hann hafði einnig skrifað færslu þar sem hann kvartaði yfir aðgerðum Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og sagði múslima í raun einungis bíða skipana. „Hver einasti múslimi sem er ósammála aðgerðum mínum, fer huldu höfði og bíður einungis skipana.“ skrifaði hann.

Vert er að taka fram að Amaq hefur margsinnis haldið því fram að einstaklingar sem fremja árásir séu á vegum ISIS. Hins vegar taka þeir ekki fram að samtökin hafi komið beint að skipulagningu árásanna. ISIS-liðar hafa margsinnis kallað eftir því að einstaklingar fremji árásir í vestrænum löndum í nafni ISIS.


Tengdar fréttir

Grunar að um hryðjuverk hafi verið að ræða

Undanfarna mánuði hafa áhyggjur aukist ytra vegna ákalls hryðjuverkasamtaka eins og Íslamska ríkisins til fylgismanna sinna um að þeir geri árásir sem þessar í heimalöndum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×