Erlent

Stuðningur við útgöngu Bretlands úr ESB eykst

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Meirihluti þeirra Breta sem hafa gert upp hug sinn varðandi framtíð aðildar Bretlands að Evrópusambandinu eru fylgjandi því að ríkið segi skilið við sambandið.

Ný könnun ORB sýnir að 43 prósent Breta séu fylgjandi útgöngu en 36 prósent segjast styðja áframhaldandi aðild. 21 prósent kjósenda segjast enn ekki hafa gert upp hug sinn.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, vinnur nú að því að semja um breytingar á aðild landsins að sambandinu, en þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Bretlands innan sambandsins verður haldin í síðasta lagi á næsta ári.

Í frétt Reuters kemur fram að stuðningur við útgöngu hafi aukist frá síðustu könnun. Sé einungis tekið tillit til þeirra sem taka afstöðu má sjá að 54 prósent Breta styðja útgöngu, en 46 prósent vilja áfram sjá landið innan sambandsins.

Í síðustu könnun ORB sögðust 51 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja að Bretland segði skilið við sambandið og 49 prósent sögðust kjósa áframhaldandi aðild.


Tengdar fréttir

Samkomulag þokast nær segir Cameron

Forsætisráðherra Bretlands stefnir að þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Breta í Evrópusambandinu strax á næsta ári. Hinir leiðtogar ESS segja málamiðlanir koma til greina, en engar breytingar á grundvallarreglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×