Erlent

Stökk úr 7,6 kílómetra hæð án fallhlífar og lenti í neti á jörðu niðri

Heimir Már Pétursson skrifar
Luke Aikins hitti á netið.
Luke Aikins hitti á netið. Vísir/AFP
42 ára gamall Bandaríkjamaður varð í gær fyrstur manna til að stökkva án fallhlífar út úr flugvél í 7.620 metra hæð og lenda í neti á jörðu niðri.

Luke Aikins á að baki um 18 þúsund fallhlífarstökk en í gær féll hann á 193 kílómetra hraða á klukkustund án fallhlífar í beinni útsendingu á Fox sjónvarpsstöðinni og fagnaði eiginkonu sinni og syni innilega eftir að hafa hitt á 330 fermetra net í Simi Valley í suðurhluta Kaliforníu.

Aikins var enn hátt uppi eftir lendinguna og sagðist ekki eiga orð til að lýsa reynslunni en viðurkenndi að hann hafi verið stressaður fyrir stökkið. Litlu munaði að ekkert yrði af því vegna krafna um að hann bæri neyðarfallhlíf en fallið var frá þeirri kröfu skömmu fyrir stökkið.

Aikins sagði að hann hefði hætt við ef hann hefði þurft að bera fallhlífina þar sem hún hefði aukið á hættuna vegna meiri þyngsla.

Skipuleggjendur segja þetta heimsmet. Enginn maður hafi áður stokkið fallhlífarlaus úr eins mikilli hæð áður. Það var vinur Aikins sem fékk hugmyndina að stökkinu fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×