Innlent

Stjórnvöld ekki gætt íslenskra hagsmuna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
„Við teljum að það sé sjálfsögð krafa að stjórnvöld efni til umræðu um aðgerðir sem snerta jafn mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar og íslenskur sjávarútvegur gerir,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gagnrýndi í gær suma útgerðarmenn harðlega vegna orða þeirra um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum. „Ef þeir vilji taka eiginhagsmuni fram yfir hagsmuni heildarinnar þá er rétt að velta því fyrir sér hvort þeir séu bestu aðilarnir til að fara með auðlindina,“ sagði Gunnar Bragi í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær.



Kolbeinn Árnason
„Við gerum okkur grein fyrir því að málið er ekki einfalt og snertir víða hagsmuni. Hins vegar er það svo að áhrifin hitta okkur Íslendinga sérlega harkalega fyrir vegna þess hve samofnir hagsmunir Íslendinga og sjávarútvegsins eru,“ segir Kolbeinn í grein sinni. 

Sjá einnig: Leitum sameiginlegra lausna

Þá segir í greininni að það skjóti skökku við að stjórnvöld skuli ekki hafa gætt íslenskra hagsmuna betur. „Hagsmunir Íslendinga í þessu máli tengjast ekki einungis hagsmunum nokkurra fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir varða þjóðarhag. Í húfi er fjöldi starfa, gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, afkoma sveitarfélaga víða um land, afkoma fyrirtækja sem skila samfélaginu stórum hluta tekna sinna sem við byggjum velferð okkar á.“

Gunnar Bragi sagði í hádegisfréttum í gær að ólíklegt væri að stuðningurinn yrði afturkallaður. Hann sagði að einhugur sé í ríkisstjórn um viðskiptaþvinganirnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×