Innlent

Gunnar Bragi segir útgerðarmenn virðast hugsa meira um næsta ársreikning en hag þjóðarinnar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Gunnar Bragi utanríkisráðherra lét útgerðarmenn heyra það í morgun.
Gunnar Bragi utanríkisráðherra lét útgerðarmenn heyra það í morgun. Vísir
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir holan hljóm í því þegar útgerðarmenn tala um hag þjóðarinnar. Hann gagnrýnir fullyrðingar útgerðarmanna um að 37 milljarðar séu í húfi þegar talan er nærri tíu milljörðum og kallar eftir því að útgerðarmenn sýni samfélagslega ábyrgð. Hann kom í Sprengisand til Sigurjóns M. Egilssonar í morgun ásamt Jens Garðari Helgasyni, formanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

„Mér finnst holur hljómur í því þegar Jens og útgerðarmennirnir eru að tala um hag þjóðarinnar. Fyrir mér snýst það einmitt um hag þjóðarinnar að við höfum átt bandamenn í að sækja fram með okkar málefni, verja okkar landhelgi eða okkar hagsmuni hvort sem það er í loft-, landhelgi eða annað. Þá sýnist mér að útflytjendur séu fyrst og fremst að hugsa um næsta ársreikning. Það finnst mér býsna gróft. Það verður líka að kalla eftir því að þessir aðilar sýni samfélagslega ábyrgð. Eigum við að treysta þessum aðilum fyrir auðlindinni?“

Jens Garðar hafði fyrr í þættinum gagnrýnt stuðnings Íslands við viðskiptaþvinganir við Rússa. Sagði hann afleiðingarnar koma margfalt meira niður á Íslandi en öðrum þjóðum.  

Gunnar Bragi benti á að heildarútflutningur Íslands á fiski til Rússlands nemi aðeins um fimm prósent af heildinni þó að mikilvægar tegundir á borð við loðnu og makríl séu í hættu.

„Mér hefur komið það spánskt fyrir sjónir að útflytjendur virðast hafa gert ráð fyrir að flytja útflutning sinn til Rússlands á sama tíma og ástandið er með þessum hætti. Á sama tíma og að við vitum að ákveðin fyrirtæki eru hreinlega í banni útaf matvælaeftirliti Rússlands,“ sagði Gunnar Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×