Erlent

Stjórnlausar eðlur eðla sig á sporbraut

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Gekkó-eðlurnar voru settar á sporbraut til þess að rannsaka eðlunarferli þeirra í þyngdarleysi.
Gekkó-eðlurnar voru settar á sporbraut til þess að rannsaka eðlunarferli þeirra í þyngdarleysi. Vísir/AFP
Rússneskur rannsóknargervihnöttur uppfullur af gekkó-eðlum og fleiri lífverum er hættur að hlýða skipunum stjórnstöðvar á jörðu.

Markmið rannsóknarinnar var að fylgjast með og skrásetja hvernig gekkó-eðlur fjölguðu sér í þyngdarlausu umhverfi gervihnattarins er hann sveif um himinhvolfin.

Þá eru einnig nokkrar aðrar tegundir lífvera með í för, einstaka skordýr og plöntur, og er þeim einnig ætlað að fjölga sér í þyngdarleysi, í þágu jarðneskra vísinda.

Hnettinum var skotið á sporbraut fyrir sex dögum, þann 19. júlí, en skömmu eftir að hann hafði flogið nokkra hringi umhverfis jörðina tapaði stjórnstöð allri stjórn.

Til allrar hamingju fyrir rannsóknarteymið sendir hnötturinn þó enn vísindalegar upplýsingar um eðlunarferli eðlanna. Teymi sérfræðinga vinnur hörðum höndum að því að endurheimta stjórn yfir hnettinum.

Á meðan geta eðlurnar notið sín um borð í gervihnettinum, sem verður á sporbraut heila 54 daga til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×