Viðskipti innlent

Starfsmenn Sports Direct fá 60-70 þúsund krónur í jólabónus

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi.
Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi.
Starfsfólk Sports Direct í Lindum í Kópavogi sem vann hjá versluninni á fyrstu fjórum mánuðum ársins, fær jólabónus með launum sínum nú um mánaðamótin. Launin eru greidd út í dag. Heildarbónusgreiðslur nema um tveimur milljónum króna og fær hver starfsmaður um 60-70 þúsund króna í bónus sem bætast við laun og desemberuppbót.

„Með bónusgreiðslunum fær starfsfólk Sports Direct að njóta verðmætasköpunarinnar sem það átti hlutdeild í. Árangurinn skilar sér nú beint í launaumslagið,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi.

Starfsmenn Sports Direct hafa verið á bilinu 80-90 á árinu. Flestir þeirra eru starfsmenn í hlutastarfi á aldrinum 18-19 ára.

Sports Direct skiptir bónusárinu upp í þrjár hluta og er nú verið að greiða fyrir fyrstu mánuði þessa rekstrarárs. Bónusarnir eru tengdir árangri starfsfólks Sports Direct í sölu, rýrnunarstjórnun og aga í launakostnaði segir í tilkynningu frá Sports Direct.

Sigurður Pálmi bætir við að það starfsfólks Sports Direct sem standi sig vel fái með þessu móti meira borgað án þess að þurfa að biðja sérstaklega um það.

Aukamánuður í launaumslaginu

Bónusinn er mishár eftir stöðu og vinnuframlagi starfsmanna. Algengast er að hann jafngildi um 25% hækkun launa starfsfólks Sports Direct í jólamánuðinum. Í sumum tilvikum starfsmanna í hlutastarfi sem unnu á bónustímabilinu getur bónusgreiðslan jafngilt því að heil mánaðarlaun leynist í launaumslaginu.

Starfsmenn í fullu starfi fá hærri bónusa en starfsfólk í hlutastarfi segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að bónusar í lok árs þekkist hjá sérverslunum þar sem laun eru almennt hærri en í stórverslunum. Því sé athyglisvert að verslun á borð við Sports Direct þakki starfsfólki sínu fyrir árangur í starfi á árinu með þessum hætti.

Um 400 verslanir Sports Direct er að finna í Bretlandi og tvö hundruð annars staðar í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×