Viðskipti innlent

Starfsmenn Samherja fá 524 þúsund krónur í jólabónus

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Starfsmenn Samherja fá yfir hálfa milljón í jólabónus.
Starfsmenn Samherja fá yfir hálfa milljón í jólabónus.
Starfsmenn Samherja í landi fá 450 þúsund króna launauppbót í desember ofan á umsamda 74 þúsund krónu desemberuppbót. Því fá þeir alls 524 þúsund krónur í sinn hlut í jólamánuðinum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að greiðslan fari til starfsmanna sem hafi verið í fullu starfi árið 2014. Þar segir einnig að samherji hafi greitt 61 þúsund krónur aukalega í orlofsuppbót starfsmanna í maí og greiðar því fyrirtækið rúma hálfa milljón til hvers starfsmanns umfram kjarasamninga.

Í tilkynningunni segir enn fremur að meðal mánaðarlaun starfsfólks í fiskivinnslu í Eyjafirði séu 410 þúsund krónur.

Í tilkynningunni, sem Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson skrifa undir, segir orðrétt:

„Það er alltaf ánægjulegt þegar hægt er að gera betur við starfsfólk, árið hefur gengið vel og þannig skapast tilefni. Við erum því glaðir í dag og mætum áskorunum komandi árs með sama krafti og áður sannfærðir um að við, í samstarfi við ykkur, náum að gera betur á næsta ári en því síðasta.“

Desemberuppbótin í ár er svipuð og undanfarin ár. Í fyrra var hún örlítið hærri, þá var aukabónusinn 500 þúsund krónur, ofan á umsömdu upphæðina. Þar áður var uppbótin 378 þúsund krónur. Hagnaður fyrirtækisins í fyrra var 22 milljarðar króna og því ljóst að vel gengur. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að það greiði 1,7 milljarð í tekjuskatt og einn milljarð í veiðileyfagjald.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×