Erlent

Starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna rekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Sally Yates var skipuð af Barack Obama og var á leið úr starfi, líklegast á næstu dögum.
Sally Yates var skipuð af Barack Obama og var á leið úr starfi, líklegast á næstu dögum. Vísir/AFP
Donald Trump hefur sakað starfandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna um „svik“ og sagt henni upp störfum. Sally Yates hafði dregið lögmæti ferðabanns Trump gegn sjö ríkjum í Mið-Austurlöndum og Afríku í efa og skipað starfsmönnum sínum að verja það ekki fyrir dómstólum.

Skömmu seinna sendi Trump frá sér tilkynningu þar sem hann sagði Yates hafa svikið ráðuneytið og skipaði hann alríkissaksóknarann Dana Boente frá Virginíu til að taka við af Yates.

Þegar Boente tók við embætti sagði hann starfsmönnum ráðuneytisins að gera „skyldu sína til að verja lögmætar skipanir“ forsetans. Hann ítrekaði að forsetatilskipun Trump, sem bannar fólki sem fæddist í sjö löndum að koma til Bandaríkjanna, sé „lögmæt“ og „dregin upp á réttan hátt“.

Sally Yates var skipuð í embætti dómsmálaráðherra af Barack Obama og stóð til að hún færi úr starfi á næstunni. Öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Sessions verður líklega staðfestur sem dómsmálaráðherra Trump af bandaríska þinginu seinna í vikunni. 

Trump greip til Twitter í nótt og sakaði Demókrataflokkinn um að tefja fyrir myndun ríkisstjórnar sinnar af pólitískum ástæðum.

Deilur hafa þó myndast innan embættismannakerfis Bandaríkjanna vegna „múslimabannsins“ svokallaða. Þar að auki hefur tilskipunin leitt til mótmæla víða um Bandaríkin.

Samkvæmt skipuninni munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttamönnum í fjóra mánuði, en blátt bann er gegn komu flóttamanna frá Sýrlandi. Þá mega aðilar frá Írak, Sýrlandi, Íran, Súdan, Líbýu, Sómalíu og Jemen ekki koma til bandaríkjanna um tíma.

Dómarar hafa gripið inn í tilskipunina í nokkrum ríkjum svo ríkið myndi ekki vísa fólki með lögmætar vegabréfsáritanir úr landi. Bannið kom opinberum starfsmönnum í opna skjöldu og var rúmlega hundrað manns, sem hafði rétt til þess að koma til Bandaríkjanna, haldið á flugvöllum í allt að 18 klukkustundir.

Trump og teymi hans hafa haldið því fram að bannið byggi á gamalli reglugerð Barack Obama frá árinu 2011.

Eftir að í ljós kom að tveir flóttamenn frá Írak, sem bjuggu í Kentucky, hefðu smíðað sprengjur fyrir vígamenn þar í landi setti Obama á reglur um að flóttamenn frá Írak þyrftu að fara í gegnum stífari bakgrunnsskoðanir sem hægðu verulega á komu flóttamanna til Bandaríkjanna. Engum var bannað að koma til landsins og stífari bakgrunnskoðanir áttu eingöngu við flóttamenn frá Írak.


Tengdar fréttir

Bandarískir embættismenn mótmæla tilskipun Trump

Tugir embættismanna í bandarísku utanríkisþjónustunni hyggjast mótmæla tilskipun Bandaríkjaforseta um takmarkanir á ferðum ríkisborgara sjö múslimaríkja til Bandaríkjanna.

Íslenskir þingmenn fordæma tilskipun Bandaríkjaforseta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, mun koma áleiðis skýrum skilaboðum stjórnvalda sem fordæma tilskipun forseta Bandaríkjanna sem bannar ríkisborgurum sjö þjóða að koma til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×