Viðskipti innlent

Stærstu bílaleigurnar hagnast um milljarð

Ingvar Haraldsson skrifar
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds ehf - Bílaleigu Akureyrar.
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds ehf - Bílaleigu Akureyrar.
Þrjár stærstu bílaleigur landsins högnuðust samanlagt um 1,1 milljarð króna á árunum 2014 og 2013. Stjórnendur fyrirtækjanna eiga von á allt að 15-18 prósent fleiri bókunum í ár, álíka vexti og á síðasta ári. „Það bara lítur út fyrir að vera enn eitt sumarið í ferðaþjónustunni þar að það verður allt á fullu,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP, sem rekur bílaleigur undir merkjum Avis og Budget.

Stóru bílaleigurnar þrjár, Höldur, sem rekur Bílaleigu Akureyrar, Bílaleiga Flugleiða sem rekur bílaleiguna Hertz sem og ALP veltu samtals 8,5 milljörðum króna árið 2014, en það er síðasta ár sem félögin hafa skilað ársreikningi fyrir. Samanlögð velta þeirra árið 2013 nam 7,4 milljörðum króna.

Alls eiga bílaleigur hér á landi 19.107 bíla og hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast á rúmum þremur árum en í árslok 2012 voru 9.828 bílaleigubílar hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Þrátt fyrir mikinn vöxt er styrking á gengi krónunnar sögð hafa neikvæð áhrif á afkomuna. „Þó við séum með fleiri bókanir þá eru þær kannski að skila sömu tekjum. Í rauninni þurfum við að hlaupa hraðar fyrir hverja krónu,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, stærstu bílaleigu landsins.

Gengi krónu gagnvart evru fór á mánudag undir 140 krónur í fyrsta sinn frá 7. október 2008. Þá hefur gengi krónu gagnvart evru styrkst um 9,2 prósent frá ársbyrjun 2015.

„Það er alltaf mjög slæmt, þetta er útflutningsgrein og hefur jafn mikil áhrif á okkur og fiskvinnsluna,“ segir Hjálmar um gengisstyrkinguna. „En svo eru aðföng að lækka í staðinn, bílar eru keyptir í erlendri mynt og þeir verða kannski eitthvað ódýrari í staðinn,“ bendir Sigfús Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz, á.

Þeir segja minni vöxt vera yfir hásumarið þar sem þá sé útlit fyrir að nær allt gistipláss verði uppbókað. „Maður er farinn að óttast að gistingin fari að fyllast og þar með hægist á bókunum hjá okkur,“ segir Steingrímur um stöðuna yfir sumarmánuðina. Meiri vöxtur sé á haustin og vorin. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×