Íslenski boltinn

Stabæk sveik líka Stjörnuna og KR um milljónir í sölunni á Veigari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svindl Stabæk-manna í sölu félagsins á Veigari Páli Gunnarssyni til Vålerenga á dögunum mun ekki aðeins koma niður á franska félaginu Nancy því íslensk félög hafa einnig misst af milljónum vegna þessa. Stjarnan og KR eru meðal þeirra félaga sem Stabæk hefur svikið um háar fjárhæðir. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Veigar Páll, lék með Stjörnunni og KR áður en hann fór út til Noregs og bæði félög eiga tilkall til hluta af söluverði leikmannsins. Þau missa því bæði af stórum upphæðum við það að kaupverð Veigars sé skráð upp á eina milljón en ekki upp á fimm milljónir sem það virðist hafa verið. Norska sjónvarpsstöðin TV2 fullyrti í gær að Stabæk hafi falið raunverulegt söluverð Veigars.

Stjarnan, uppeldisfélag Veigars Páls, missti líklega af þremur milljónum, við þetta brask Stabæk og Vålerenga samvæmt samstöðubótakerfi FIFA. Almar Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar, lítur málið alvarlegum augum og hefur sett sig í samband við norska knattspyrnusambandið.

„Þarna er um verulegt hagsmunamál fyrir Stjörnuna og KR í þessu tilfelli en ekki síður fyrir íslenska knattspyrnu og það að við fáum greitt fyrir uppeldi á góðum leikmönnum," sagði Almar Guðmundsson í samtali við Hans Steinar Bjarnason.

„Það sem við höfum gert í dag er að senda erindi til norska knattspyrnusambandsins og í framhaldinu munum við setja okkur í samband við norsku félögin Stabæk og Vålerenga til að fá úr þessu skorið," sagði Almar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×