Innlent

Slóð tékknesku feðganna: Stálu peningum, veski og tækjum fyrir um 800 þúsund krónur

Atli Ísleifsson skrifar
Feðgarnir, sem eru 43 og 22 ára gamlir, hafa ekki verið búsettir hér á landi né nokkur önnur tengsl við landið.
Feðgarnir, sem eru 43 og 22 ára gamlir, hafa ekki verið búsettir hér á landi né nokkur önnur tengsl við landið. Vísir
Tékkneskir feðgar voru í gær dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir röð þjófnaða og innbrot á landinu fyrr í mánuðinum.

Feðgarnir, sem eru 43 og 22 ára, hafa hvorki verið búsettir hér á landi né hafa þeir nokkur önnur tengsl við landið. Þeir játuðu báðir skýlaust þau brot sem þeim var gefið að sök í ákærunni.

Stálu tölvum og peningum úr sumarhúsi

Í dómnum, sem Vísir hefur undir höndum, segir að feðgarnir hafi í sameiningu farið í heimildarleysi inn í sumarhús í Helgafellssveit á Snæfellsnesi þann 7. ágúst og stolið þaðan MacBook Air tölvu og Ipad spjaldtölvu að verðmæti um 395 þúsund krónur. Þá hafi þeir stolið 200 evrum í peningum.

Degi síðar fóru mennirnir inn í verslunina Húnabúð á Blönduósi og stálu um 49 þúsund krónum úr búðarkassa og veski að verðmæti 29 þúsund krónur. Í veskinu var einnig að finna 23 þúsund krónur, auk persónulegra muna, korta og skilríkja.

Líkt og fram kom í fyrri frétt Vísis um brot mannanna beittu mennirnir þeirri aðferð að yngri maðurinn hélt afgreiðslufólki uppteknu með því að ræða lengi við það um möguleg peysukaup á meðan sá eldri lét greipar sópa. Beittu þeir svipaðri aðferð í ferð sinni um landið.

Húnabúð á Blönduósi.Mynd/Húnabúð
Blönduós, Akureyri og Eskifjörður

Feðgarnir héldu svo ferð sinni áfram og síðar sama dag, 8. ágúst, fóru þeir inn í Skagfirðingabúð á Sauðárkróki og stálu þaðan tveimur Samsung S5 snjallsímum, samtals að verðmæti 169.800 krónur.

Tveimur dögum síðar fóru mennirnir inn í verslunina Flóru við Hafnarstræti á Akureyri og stálu þaðan 21 þúsund krónur úr búðarkassa, auk 10 þúsund króna úr handtösku í eldhúsi verslunarinnar.

Daginn eftir, þriðjudaginn 11. ágúst, fóru feðgarnir svo inn í verslunina Samkaup Strax á Eskifirði þar sem þeir stálu 45 þúsund krónum úr búðarkassa.

Lögreglan missti af þeim á Eskifirði en fékk upplýsingar um útlit annars mannsins og ökutæki sem sem leiddu til handtöku mannanna eftir að lögreglan á Suðurlandi setti upp vegatálma á þjóðvegi 1 við Höfn í Hornafirði síðar þennan sama þriðjudag. Degi síðar voru mennirnir úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Una dómnum

Dómur féll í Héraðsdómi Vesturlands í gær. Í málinu komu jafnframt fram bótakröfur frá eigenda sumarhússins og rekstraraðilum tveggja verslana sem feðgarnir voru dæmdir til að greiða. Um var að ræða endurgreiðslu á þeim fjármunum sem var stolið.

Líkt og áður segir voru mennirnir dæmdir í þriggja mánaða fangelsi. Þeir þurfa þó ekki að sitja inni brjóti þeir ekki af sér á næstu þremur árum. Feðgarnir þurfa að greiða málsvarnarlaun fyrir verjendur sína og ferðakostnað þeirra.

Lögmaður eldri mannsins segir í samtali við Vísi að feðgarnir muni báðir una dómnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×