Viðskipti innlent

Skuldir heimilanna hafa hækkað um 28 milljarða

.Erla Hlynsdóttir skrifar
Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um 28 milljarða króna á þessu kjörtímabili, útaf skattahækkunum ríkisstjórnarinnar. Þetta nemur ríflega 200 þúsund krónum á hvert heimili að meðaltali.

Frá febrúar 2009 og til síðustu áramóta höfðu verðtryggð lán heimilanna hækkað um 23 milljarða, samkvæmt svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns í febrúar á þessu ári.

Á árinu sem nú er að líða er áætlað að þessar skuldir hafi hækkað um tvo og hálfan milljarð, svo sem vegna hækkana á bensíni, áfengi og bifreiðagjöldum.

Svipaðrar hækkunar er að vænta á næsta ári samkvæmt skattahækkunum sem gert er ráð fyrir í bandormsfrumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, tveir og hálfur milljarður. Alls er þetta 28 milljarða króna hækkun á fjórum árum. Að meðaltali þýðir þetta um 216 þúsund króna hækkun á hvert heimili.

Skattahækkanir og gjaldabreytingar ríkisins hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og hækka verðtryggðar skuldir heimilanna sem því nemur.

Ríkisstjórni lagði fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu á dögunum. Þar er gert ráð fyrir sérstökum tekjuöflunaraðgerðum sem eiga að skila ríkissjóði 8,4 milljörðum í tekjur á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×