Viðskipti innlent

Skoðar hvort fjölmiðlar hafi ýtt undir eignabólu fyrir hrun

ingvar haraldsson skrifar
Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, kannar þátt fjölmiðla í eignabólunni fyrir hrun.
Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, kannar þátt fjölmiðla í eignabólunni fyrir hrun. vísir/gva
Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, vinnur að því að kortleggja þátt fjölmiðla í eignabólunni sem varð á árunum fyrir hrun. „Það er sterkur grunur að það sé hluti af skýringunni á hversu mikil ofurbjartsýni var hérna,“ segir Gylfi.

„Hugmyndin er að kortleggja þetta með því að skrá umfjöllun um banka og hlutabréfamarkað og aðrar lykilstærðir skömmu fyrir aldamót og fram að hruni. Reyna svo að sjá mynstur út úr því og hvaða áhrif það virðist hafa haft á t.d. hlutabréfaverð bankanna,“ segir Gylfi.

Hann segir erlendar rannsóknir benda til þess að fjölmiðlar geti átt stóran þátt í myndun eignabóla.

„Umfjöllun fjölmiðla getur búið til jákvæðan spíral. Það koma góðar fréttir af hlutabréfamarkaði sem vekja athygli og verða til þess að meira fé kemur inn á markaðinn. Það býr aftur til góðar fréttir af hækkandi hlutabréfa verði og öðru slíku sem aftur laðar að meira fé sem kyndir undir eignaverðsbólu,“ segir hann.

Gylfi hefur þegar rannsakað þátt fjölmiðla í netbólunni svokölluðu um síðustu aldamót.

„Það verkefni fólst í að kortleggja umfjöllun um nokkur íslensk fyrirtæki sem varð mikill stemming í kringum og hlutabréfaverð rauk upp en síðan brenndu hluthafarnir sig á fjárfestingunni í öllum tilfellum.“ 

En hann viðurkennir þó að fjölmiðlar skapi ekki einir eignabólur. „Það er margt annað sem skiptir máli. En fjölmiðlar endurspegla og skapa ákveðna stemningu. Það er auðvitað hlutverk fjölmiðla að segja frá því sem er að gerast í samfélaginu en með því að gera það geta þeir líka haft áhrif á gang mála,“ segir ráðherrann fyrrverandi.

Gylfi á von á að verkefnið taki nokkurn tíma enda sé tímafrekt að skrá og vinna úr öllum gögnum sem verður safnað. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×